145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

samkeppnisstaða álfyrirtækja.

[15:20]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Það er almenn stefna þessarar ríkisstjórnar að tryggja atvinnulífinu öllu samkeppnishæft og helst betra umhverfi en tíðkast í löndunum sem við berum okkur saman við. Það á við um þennan iðnað eins og annan.

Það stendur ekki til að auka ívilnanir og vil ég leiðrétta hv. þingmann, það kom ekki fram í mínu máli. Það sem við erum að gera í þessari greiningu er að við erum að skoða samkeppnisumhverfi hér til samanburðar við það umhverfi sem sambærilegur iðnaður býr við annars staðar.

Síðan er það annað sem hv. þingmaður nefnir og það eru raforkusamningar og framboð og eftirspurn eftir raforku. Þeir samningar sem hér um ræðir eru gerðir til langs tíma og það er ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar sem það verklag var hafið að veita ívilnanir til stórframkvæmda. Ég minni á að á síðasta þingi hafði sú ríkisstjórn sem (Forseti hringir.) hv. þingmaður tilheyrði forgöngu um að veita sérstakar ívilnanir til ákveðins verkefnis á Norðurlandi sem við höfum haldið áfram. Þetta er því verklag sem þingmaðurinn ætti að þekkja ágætlega.