145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

ríkisfjármálaáætlun.

[15:34]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur fram í ríkisfjármálaáætlun að beita eigi ströngu aðhaldi í opinberum umsvifum og framkvæmdum til að slá á þenslu. Hins vegar er rétt, sem kemur fram hjá hæstv. fjármálaráðherra, að þegar rýnt er í tölurnar er verið að setja allmikla fjármuni í framkvæmdir, eins og t.d. á vegum Isavia. Ríkisstjórnin státar sig af því að vera að setja á næstu fimm árum 30 milljarða aukningu inn í heilbrigðiskerfið. En þegar nánar er að gætt þá er 21 milljarður vegna stofnkostnaðar við byggingu nýs Landspítala. Það þýðir að sáralítið er eftir til að bæta á og auka þjónustuna í heilbrigðiskerfinu. Það er einmitt þetta ósamræmi sem ég vildi ræða við hæstv. fjármálaráðherra vegna þess að það er auðséð að orð og gjörðir stangast á í ríkisfjármálaáætluninni. Þess vegna væri fróðlegt að vita hvort (Forseti hringir.) stefnan er að hlúa að þjónustuþáttunum og bæta og styrkja velferðarkerfið, sem væri auðvitað æskilegt að gera þegar hætta er á þenslu, (Forseti hringir.) eða hvort meiningin er að keyra bara áfram í opinberum umsvifum með þeirri þenslu sem af því hlýst.