145. löggjafarþing — 116. fundur,  23. maí 2016.

Grænlandssjóður.

754. mál
[16:58]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Ég hef lagt fram tvær fyrirspurnir til hæstv. ráðherra sem varða stöðu og framtíðarhorfur Grænlandssjóðs. Á sínum tíma, árið 1980, var stofnun Grænlandssjóðs ákaflega mikilvægt framtak sem varð til þess að efla verulega samskipti millum íslensku og grænlensku þjóðanna á mörgum menningartengdum sviðum.

Málið er mér og hæstv. ráðherra skylt vegna þess að við höfum báðir, hvor með sínum hætti, komið að margvíslegum samskiptum millum þjóðanna. Báðir höfum við tosað fram æki skáklistarinnar með því að við höfum sem alþingismenn og ráðherrar reynt að efla það góða framtak sem skákfélagið Hrókurinn hefur staðið fyrir og alþjóð þekkir. Á sínum tíma naut það framtak, alveg eins og ýmislegt annað sem var í gangi millum þjóðanna tveggja, stuðnings úr Grænlandssjóði.

En nú er annað uppi. Sjóðurinn er óstarfhæfur, ekki vegna þess að honum sé féskylft heldur vegna þess að reglur um hann eru ákaflega óskýrar og það er í reynd enginn sem ber ábyrgð á því með hvaða hætti ber að ávaxta fé sjóðsins. Í dag held ég að í sjóðnum séu millum 70–80 millj. kr. Hann er í vörslu Seðlabankans og það er ekkert í lögunum frá 1980 sem leggur neinar sérstakar kvaðir á Seðlabankann að sjá til þess að stuðlað sé að þokkalegri ávöxtun, og auðvitað hámarksávöxtun sem væri hið besta í þessu máli. Það hefur valdið því að ég hef ekki orðið þess var síðustu árin, eða allar götur frá kreppu, frá bankahruni, að nokkuð hafi komið frá þessum sjóði til að styrkja þessi samskipti.

Meðal þingheims er mikill áhugi um að efla samstarfið við Grænland. Þess sér stað á mörgum sviðum. Hv. þm. Unnur Brá Konráðsdóttir hefur til dæmis lyft grettistaki við að efla Vestnorræna ráðið þar sem hún hefur ekki síst lagt áherslu á að lyfta og efla hlut Grænlands í samskiptunum við systurþjóðirnar tvær. Á þessu þingi hefur hópur þingmanna lagt fram mjög ítarlega tillögu um eflingu þessa samstarfs í 15 tölusettum liðum. Allt bendir til þess að um þá tillögu sé að nást mikil samstaða sem muni leiða til samþykktar hennar á þessu þingi. Þar er Grænlandssjóði ætlað verulegt hlutverk, ekki síst á þeim sviðum sem heyra undir hæstv. ráðherra.

Ég hef því leyft mér að leggja spurningar fram. Önnur lýtur að því hvort hæstv. ráðherra hyggist freista þess að ná fram samþykkt á nýjum lögum um Grænlandssjóð. Þeirri spurningu er kannski sjálfsvarað; ég rakst á frumvarp til umsagnar, ágætisfrumvarp, þó ekki gallalaust. Síðari spurningin varðar hins vegar með hvaða hætti sjóðurinn hefur verið ávaxtaður og hversu miklu fé hefur verið úthlutað (Forseti hringir.) á kjörtímabilinu úr sjóðnum. Með því er ég auðvitað að nota staðreyndir sem koma fram í svari hæstv. ráðherra til þess að leiða honum sjálfum fyrir sjónir að staðan í þessum málum er ekki góð. Vöskum ráðherra hlýtur að renna blóðið til skyldunnar.