145. löggjafarþing — 117. fundur,  24. maí 2016.

staða fjölmiðla á Íslandi.

[14:22]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að nota tækifærið í þessari umræðu til að hrósa íslenskum blaðamönnum og fréttamönnum. Á mörgum miðlum og mjög víða hafa þeir staðið sig ótrúlega vel. Ekki þarf annað en að fara yfir feril núverandi ríkisstjórnar til að átta sig á því hversu víðtæk og mikil áhrif þessara harðskeyttu blaðamanna hafa verið á hana til að átta sig á hversu vel þeir standa sig. Það er til dæmis athyglisvert að ímynda sér hvernig núverandi ríkisstjórn mundi líta út ef ekki væru öflugir fjölmiðlar og blaðamenn og fréttamenn í landinu. Þá væru að minnsta kosti tveir ráðherrar enn á ráðherrabekk.

Það er gríðarlega mikilvægt að hrósa blaðamönnum og hvetja þá til að halda áfram á þeirri braut sem þeir hafa verið á, að láta ekki tilraunir stjórnmálamanna til að sveigja umræðuna, til að velja sér viðmælendur, til að velja sér spurningar, hafa áhrif á sig. Það hefur verið gegnumgangandi framferði ráðherra í núverandi ríkisstjórn, þar með talinn hæstv. menntamálaráðherra sem hefur reynt að gera þetta með því að velja sér viðmælendur, velja sér svör, velja sér spurningar sem hann á að svara. Það eru tilraunir sem enda með ósköpum. Þess vegna hafa ráðherrar í ríkisstjórninni orðið fyrir skaða, út af til dæmis samskiptum sínum við fyrirtæki á borð við Orku Energy, hæstv. fjármálaráðherra vegna tengsla sinna við stefnumótasíðu eins og Ashley Madison eða óljós svör um eignarhald í einhverjum félögum. Þess vegna hefur hæstv. fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, orðið fyrir pólitískum skaða vegna hugmynda sinna um umhverfismál. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur ekki átt sjö dagana sæla vegna algers frammistöðuleysis síns í málefnum ferðamanna sem hefur verið fjallað um úti um allt. (Forseti hringir.) Svo mætti lengi áfram telja, afrekalistinn er gríðarlega mikill og full ástæða er til að hrósa íslenskum blaðamönnum fyrir það (Forseti hringir.) hvernig þeir láta ekki koma í veg fyrir að þeir leiði sannleikann í ljós. (Forseti hringir.) Þeir eru áminning fyrir íslenska stjórnmálamenn, að framferði þeirra í öllum málum, fyrir og eftir að þeir taka embætti, verður að þola dagsljósið.