145. löggjafarþing — 118. fundur,  25. maí 2016.

lögreglulög og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

742. mál
[17:45]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða ágætt framfaramál sem er að færa menntun lögreglumanna yfir á háskólastig og að starfsgengisskilyrði lögreglumanna verði framvegis diplómapróf í lögreglufræðum með 120 stöðluðum háskólaeiningum. Jafnframt er miðað að því að setja á stofn mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu innan embættis ríkislögreglustjóra.

Þetta er hið besta mál og löngu tímabært að stíga slíkt skref. Frumvarpið varðar inntak og undirbúning lögreglustarfsins. Þetta varðar traust og tiltrú almennings á lögreglunni. Þetta varðar sjálfsmynd og starfsánægju lögreglumanna sem ástæða er til að ætla að batni til muna við lagabreytinguna. Þetta varðar í raun og veru allt sem heitið getur inntak og umbúnaður þessa starfs og er til þess fallið að bæta mjög stöðu lögreglunnar og hagsmuni borgaranna því að þeir eiga mikið undir því að hér sé starfandi gott, vel menntað og vel þjálfað lögreglulið í landinu sem þekkir sínar starfsskyldur vel og rækir þær vel.

Það er þörf á þessari breytingu vegna þess að afbrot nútímans kalla á allt aðra menntun og allt annan undirbúning en lögreglumenn fengu fyrir nokkrum áratugum. Hér hefur mikið verið að breytast varðandi efnahagsbrot, mansal og vændi, brot sem krefjast mjög sértækrar þekkingar, alla málsmeðferð og rannsókn slíkra mála, þannig að með þessu frumvarpi mundi ég telja að verið væri að svara kalli tímans.

Ég heyri á ræðum annarra þingmanna í þessu máli og varð þess auðvitað vör í hv. allsherjar- og menntamálanefnd að skoðanir eru skiptar um einstaka þætti, útfærsluþætti, hvernig haga beri náminu, hvernig samstarf milli menntastofnana eigi að vera o.s.frv. Það er bitamunur en ekki fjár. Veldur hver á heldur í þeim efnum.

Þetta eykur möguleika lögreglumanna á námstengdari starfsþróun en verið hefur og eykur möguleika lögreglumanna til að afla sér frekari menntunar í tengdum greinum á háskólastigi. Það er hins vegar mikilvægt að standa vel að þessum breytingum.

Hér er gert ráð fyrir að Lögregluskóli ríkisins verði lagður niður í núverandi mynd, en gert ráð fyrir samþættingu verknáms og bóknáms lögreglumanna með samstarfi menntastofnana. Sú samþætting getur auðvitað verið með ýmsu móti og hafa háskólarnir viðrað ýmsar hugmyndir varðandi þá tilhögun. Það er allt mjög skoðunarvert.

Hv. allsherjar- og menntamálanefnd leggur til að vísað verði til háskólalaga þar sem við á í þessu máli. Þar er tekið tillit til umsagnar Háskóla Íslands svo það sé alveg skýrt hvar ábyrgðarmörk háskólanna liggja varðandi námið og jafnvel þótt leitað verði samstarfs við fleiri menntastofnanir um aðskiljanlega námsþætti. Það tel ég að sé til bóta.

Það er líka ánægjulegt að verða þess var að háskólarnir eru allir mjög viljugir og hafa lýst yfir ríkum áhuga á því að taka þetta nám að sér. Vonandi boðar það gott þannig að þetta verði spennandi valkostur. Hvernig svo sem þessu verður fyrir komið vona ég að það verði eitthvað spennandi, jákvætt og skapandi sem hlýst af því.

Þegar þessi breyting er komin verður menntun lögreglumanna vonandi samkeppnishæf við það sem best gerist í nágrannalöndum, það er markmiðið. Það eykur líka möguleika lögreglumanna til þess að færa sig til í starfi milli landa og afla sér reynslu víðar og víkka sjóndeildarhringinn. Eins og ég sagði áðan eykur þetta líka möguleika þeirra á því að afla sér frekari menntunar á háskólastigi í tengdum greinum, jafnvel utan við lögreglufræðin. Fram hefur komið að mikill meiri hluti lögreglumanna í landinu er fylgjandi þessari breytingu. Þótt ekki væri nema þess vegna er þetta skref jákvætt.

Hins vegar er auðvitað brýnt að tryggja fjármögnun og gera þetta vel. Það er kannski helsta áhyggjuefnið. Ég vona að þetta mál lendi ekki í einhverri togstreitu vegna aðskiljanlegra hagsmuna, jafnvel einstaka menntastofnana sem vilja sinna þessu. Ég vona að þetta verði frekar til þess að stofnanir og aðilar geti fundið samstarfsflöt á því að gera þetta vel.

Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri, virðulegi forseti, enda tel ég að málið sé gott og ég ljái því stuðning minn.