145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stefna í skattlagningu á bifreiðaeigendur.

[15:01]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að þessi umræða er ívið áhugaverðari en ég bjóst við að hún yrði þegar ég sá hana á dagskránni. Mér þykja sum þessi vandamál sem hv. framsögumaður og hæstv. ráðherra nefna kjánaleg. Mér finnst þau vera einkenni þess að fólk reynir oft að setja reglur sem í fljótu bragði virðast mjög góðar en gleymir því að reglurnar sjálfar hafa áhrif á hegðun fólks og þar af leiðandi útkomuna og geta haft afleiðingar sem ekki voru upprunalegt markmið. Það þekkjum við svo sem af því að breyta hlutum í samfélaginu yfir höfuð.

En auðvitað er stór réttlæting fyrir hlutum eins og kolefnisgjaldi og því um líku sú að bensín og olía í víðu samhengi í samfélaginu er ákveðið vandamál, fíkn samfélagsins í þessi efni er vandamál. Hún er ekki bara loftslagsvandamál, hún er geo-pólitískt vandamál. Þegar við hugsum 100 ár fram í tímann eigum við að mínu mati að stefna að því að skipta út þessu efni fyrir annað sem er notað til þess að knýja áfram bíla og margt annað í samfélaginu líka. Það þýðir í stuttu máli rafbílavæðingu, til lengri tíma. Svo er hægt að fara milliskref með til dæmis metani eða einhverju því um líku. En til lengri tíma lít ég svo á að rafbílavæðing sé eina leiðin.

Það er mikilvægt að við höfum í huga að ekki er hægt að búast við því að það vandamál verði leyst á markaðsforsendum. Þar verðum við að stíga inn í með einhverjum hætti. Það getur þýtt skattlagningu á bensín og olíu. Það þarf ekki endilega að þýða að við notum þá aðferð fyrst og fremst heldur miklu frekar jákvæðar aðferðir gagnvart því að taka upp aðrar leiðir til að knýja ökutæki, svo sem rafmagn eða metan til skemmri tíma eða hvað sem er.

Mig langar að minnast á ræðu mína um fyrra umræðuefnið nú í dag, þegar kemur að einföldun skattkerfisins. Ég held að hægt væri að ná fram miklum bótum (Forseti hringir.) og einföldun í skattkerfinu með því að setja það í heild sinni fram á þann hátt að það sé auðveldara fyrir aðra en þá sem sérhæfa sig í tilteknum málaflokki að kynna sér það og koma með tillögur að úrbótum.