145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[15:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það varð mikil umræða um EFTA á sínum tíma og rök gegn því til varnar íslenskri framleiðslu áttu fyllilega við rök að styðjast enda reyndust varnaðarorð manna ganga eftir, því miður. Það gerist á ýmsum sviðum. Ég hvet hins vegar ekki til þess að við snúum niður af þeirri þróun sem orðið hefur en það er ekkert að því eða rangt við það að vilja verja atvinnulíf í landi, hvort sem það er húsgagnaiðnaður, eins og var á sínum tíma, eða margvísleg önnur framleiðsla, skipasmíðar o.s.frv. Það er ekkert rangt við það. Það er ekki bannað að hafa slíkar skoðanir og það er rangt að reyna að úthýsa allri stjórnmálaumræðu úr þessu húsi með því að gera lítið úr röksemdum manna og líka fyrri tíðar eins og hér var gert. Þeir sem höfðu uppi varnaðarorð á sínum tíma höfðu ýmislegt fram að færa sem var fyllilega rétt. Síðan er annað í þróuninni sem hefur orðið til góðs. Þannig er bara lífið og þannig gengur þetta fyrir sig.

Hv. þingmaður sagði að hann væri ekki að spyrja mig um afstöðu mína til erlendra samskipta, hann væri bara með þá athugasemd að ég væri almennt á móti þeim. En það eru ósannindi. (Gripið fram í.) Ég er mjög hlynntur alþjóðlegum samskiptum. Ég hef alla mína starfsævi tekið þátt í slíku á vettvangi verkalýðshreyfingar og vettvangi þingsins, stjórnmálanna. Ég hef hins vegar ekki verið með þröngsýn viðhorf, ekki músarholusjónarmið Evrópusambandssinna. Það er allt of lítið fyrir mig, ég vil hafa allan heiminn undir. Ég vil erlend samskipti sem allra mest. Síðan vil ég náttúrlega að þau fari fram á tilteknum forsendum en ég er fylgjandi erlendum samskiptum.

Ég hef ekki talað fyrir því að snúa niður af eða (Forseti hringir.) loka fyrir allan innflutning á matvöru til landsins. Ég er að ræða um þetta frumvarp hér sem ég er andvígur. Ég tel að það eigi ekki að samþykkja þessa tillögu og að það sé lágmarkskrafa að það verði orðið við tillögum og óskum sem komið hafa frá verkalýðshreyfingu, frá ýmsum byggðarlögum, um að áður fari fram úttekt og rannsókn á þessu.