145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:17]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit að hv. þingmaður var svolítið tregur í taumi varðandi þessa hugmynd á sínum tíma, ekki alveg ginnkeyptur fyrir henni. Ég held nefnilega að ef sú leið yrði farin, sem þingmaðurinn nefndi, að bjóða allan óunninn fisk á innlendan markað og skilja á milli veiða og vinnslu þá gæti það bjargað miklu. Ég hef ákveðnar efasemdir um allt þetta byggðabix í þeim skilningi að á meðan það er svona lítið til ráðstöfunar og það er verið að stýfa úr hnefa svo takmarkaðar úrlausnir fyrir byggðarlögin þá finnst mér það kalla á óheilbrigt ástand. Það væri miklu nær, eins og þingmaðurinn nefnir, ef hægt væri að binda við byggðarlögin eitthvert tiltekið magn aflaheimilda til að tryggja að það fari ekki allt forgörðum ef útgerðarmaðurinn ákveður að flytja sig um set.

Þá vaknar líka spurning hvort það væri, nú er ég að hugsa upphátt, ekki eðlilegra að reyna að fækka öllum þessum smærri ívilnunaraðferðum og einfalda kerfið og færa þá sveitarfélögunum jafnvel eða byggðunum verkfæri í hendur til að ráðstafa einhverjum hluta aflaheimilda. Hvernig menn færu að því að finna þær aflaheimildir, það eru ýmsar leiðir til þess. Það mætti taka aflaaukningu. Það mætti umreikna nýjar tegundir sem eru að koma o.s.frv. En er þingmaðurinn mér sammála um að það væri kannski farsælla að breyta þessum byggðatengingum sem eru til staðar nú þegar og reyna að einfalda þær eitthvað?