145. löggjafarþing — 120. fundur,  30. maí 2016.

viðskipti við Nígeríu.

716. mál
[15:38]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Valgerði Gunnarsdóttur, fyrir að vekja máls á stöðu viðskipta við Nígeríu. Eins og fram hefur komið er hér um mikla hagsmuni að ræða, þeirra sem þurrka fiskafurðir eða flytja út þurrkaðar fiskafurðir.

Hér er líka um mikla hagsmuni sjávarútvegsins í heild að ræða þar sem þurrkun skiptir miklu máli við fullnýtingu hráefnis. Því miður er staðan sums staðar orðin sú að starfsfólki hefur verið sagt upp svo að ekki sé talað um alvarlega stöðu í Nígeríu.

Mér fannst því mjög gott að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra að unnið er markvisst í utanríkisráðuneytinu í leit að mögulegum leiðum til lausna. Ég velti jafnframt fyrir mér hvort ekki sé mikilvægt að huga að öflun annarra markaða fyrir þurrkaðar afurðir samhliða vinnunni gagnvart Nígeríumarkaði.