145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

aðgerðir stjórnvalda gegn skattsvikum o.fl.

787. mál
[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ágæta umræðu þar sem víða hefur verið komið við. Ég þakka sömuleiðis fyrir það að málinu er tekið með jákvæðum hætti og menn sammála um að hér séu að minnsta kosti komin mörg efnisatriði sem efnahags- og viðskiptanefnd hafi áður komið auga á og verið sé að bregðast við því ákalli að við fyllum í eyðurnar í löggjöfinni hjá okkur. Á sama tíma verð ég að segja að við höfum, í tilefni af þessu frumvarpi, efnt til þó nokkuð breiðrar umræðu. Ég segi til dæmis varðandi kennitöluflakkið almennt að þá tengdist það fyrst og fremst því atriði í frumvarpinu sem snýr að áhættumati, við erum hér að leggja til að lögfest verði að til staðar verði áhættumat, m.a. út af hættunni á kennitöluflakki.

Mig langar að koma aðeins inn á örfá meginatriði þessa máls sem mér finnst skipta máli að halda til haga. Í fyrsta lagi það að í umræðunni hefur því verið velt upp hvers vegna við förum einfaldlega ekki þá leið að banna íslenskum aðilum að stofna til félaga á lágskattasvæðum. Ég hef aðeins komið inn á það hér í andsvari í dag að ég tel það langfarsælast fyrir okkur Íslendinga að fylgja þeim meginstraumum sem hafa ráðið för í því efni á alþjóðavettvangi, að leggjast frekar á árarnar með öðrum löndum um gerð upplýsingaskiptasamninga og vinna að því að afnema leyndina. Í þeim tilgangi höfum við náð miklum árangri eins og fram hefur komið í umræðunni í dag og undanfarnar vikur. Það er þó enn talsvert verk óunnið þar. Sú vinna heldur áfram undir forustu OECD.

Í öðru lagi höfum við farið þá leið að taka til baka ávinninginn af því að koma sér fyrir á lágskattasvæði með því að segja að engu að síður verði menn skattlagðir á Íslandi þrátt fyrir að þeir hafi komið sér fyrir þarna, að það sé svona eins og horft í gegnum félagið. Mörg af þeim atriðum sem er að finna í frumvarpinu sem við ræðum hér eru til þess að ganga lengra í því að horfa í gegnum félagið. Það á til dæmis við um það ákvæði þessa frumvarps sem snýr að hugtakanotkun, að horft sé á tekjurnar frekar en bara hagnaðinn eins og ég hef vikið að, en líka varðandi nýtingu á skattalegu tapi og réttinn til að flytja eignir o.s.frv. Við erum að gera þetta tvennt. Við erum að reyna að afhjúpa leyndina og við erum að reyna að draga úr ávinningnum af því að koma sér fyrir á þessum stöðum. Ekkert af þessu breytir neinu um það að hvað sem öðru líður þá eru þeir sem ekki gera hreint fyrir sínum dyrum gagnvart skattyfirvöldum ávallt að brjóta lög. Af þeirri ástæðu finnst mér í sjálfu sér ekki ástæða til að fara bannleiðina. Sama gildir varðandi það að fara að gera refsivert að veita ráðgjöf um mál af þessum toga. Áherslur mínar hafa fyrst og fremst snúið að því að uppræta leynd, taka þátt í alþjóðlegu baráttunni gegn peningaþvætti og ná í skottið á skattsvikurum.

En í umræðunni í dag hefur verið gengið örlítið lengra og sagt: Já, það er ágætt að berjast gegn skattsvikunum, en við þurfum líka að taka á skattsniðgöngunni. Þaðan kemur umræðan um þunna eiginfjármögnun, eftir atvikum milliverðlagningu og eftir atvikum einnig enn frekari leiðir til að draga úr hvatanum til að sækja í lágskattalönd, lágskattaríki. Um það vil ég segja þetta: Í fyrsta lagi varðandi hugtakanotkun — hún hefur svolítið verið á reiki í almennri umræðu. Ég geng út frá því, þegar menn tala um skattsniðgöngu hér, að þá séu menn að tala um löglega lágmörkun skattgreiðslna. Við þurfum að geta rætt skattsniðgönguna, löglega lágmörkun skattgreiðslna, í stærra samhengi en bara við aflandsfélögin. Við erum til dæmis hér á Íslandi með lög í gildi um ívilnanir vegna nýfjárfestinga. Við höfum, fyrir einungis þremur árum, sett lög um heimild til samninga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi svo að dæmi sé tekið. Margir aðrir fjárfestingarsamningar eru í gildi og hafa verið gerðir.

Mig langar aðeins örstutt að minna á það að í sumum fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið á undanförnum árum er einmitt að finna sérstök ákvæði sem snúa að þunnri eiginfjármögnun eða eftir atvikum og sérstaklega kannski milliverðlagningunni. Gleymum því ekki að við settum síðan sérstakar nýjar reglur um milliverðlagningu á árinu 2013. Í fjárfestingarsamningum sem í gildi eru í dag er þessu, að því er mér skilst, háttað með eitthvað ólíkum hætti. Sums staðar er tekið sérstaklega á þessu. Mér er sagt að jafnvel séu dæmi um að það sé neikvætt ákvæði í fjárfestingarsamningum sem gerðir hafa verið hér á árum áður, þ.e. að jafnvel þótt í lög yrðu leiddar reglur um milliverðlagningu yrði viðkomandi samningur undanskilinn. Við höfum meira að segja gengið svo langt í einhverjum tilvikum er mér sagt án þess að ég hafi lesið hvern og einn samning.

Ég nefndi hér lög um ívilnanir vegna nýfjárfestinga og einstaka samninga sem við höfum gert, eftir atvikum lög sem við höfum sett um þau efni. Mér finnst við ekki geta nálgast umræðuna á svona breiðum grundvelli með þeim hætti að segja að það sé afsiðvæðandi fyrir samfélagið að horfa upp á það að menn leiti leiða til að lágmarka skattgreiðslur sínar eftir atvikum með því að færa starfsemi sína að hluta eða öllu leyti til annarra landa, á sama tíma og við erum sjálf að leiða í lög reglur og gera samninga til þess að laða hingað til landsins, með undanþágum, með afslætti frá sköttum og opinberum gjöldum, fyrirtæki á þeim sama grundvelli. Það finnst mér vera tvískinnungur. Það er ekki bæði hægt að segja að við ætlum að ná að stoppa alla þá sem ætla að reyna að lágmarka skattgreiðslur sínar á Íslandi, en við ætlum á sama tíma að draga til Íslands alla þá sem vilja njóta afsláttar á sköttum og gjöldum. Þá er ég einfaldlega að segja að það verður alltaf einhver samkeppni um skatta og gjöld, samkeppni um rekstrarumhverfi fyrirtækja; jafnvel gengur það svo langt að það fer niður á einstakar starfsgreinar.

Erum við til dæmis ekki með hér í þinginu frumvarp um að veita, vegna kvikmyndagerðar, 25% endurgreiðslu og færa hlutfallið úr 20 upp í 25% vegna kostnaðar sem fellur til á Íslandi? (Gripið fram í.) Erum við ekki að reyna að laða til landsins fyrirtæki sem vilja njóta sérstakra ívilnana á Íslandi með þeim hætti? Eru þau í skattsniðgöngu í heimalandi sínu, viðkomandi fyrirtæki? Er verið að afsiðvæða alþjóðaviðskiptin með þessu háttalagi, með þessari lagasetningu? (Gripið fram í.) Ég spyr. Ja, það er auðvitað alltaf hægt að segja að eitthvað sé ekki sambærilegt, en þetta er 25% afsláttur vegna kostnaðar sem fellur til hér á landi.

Í tilfelli laga um kísilver í landi Bakka í Norðurþingi, hvað vorum við tilbúin til að gera til þess að vekja áhuga fyrirtækis á að koma til Íslands með starfsemi sína? Hvað vorum við tilbúin til að gera? Við vorum í fyrsta lagi tilbúin til þess að gefa afslátt af tekjuskatti fyrirtækisins. Við lofuðum 15% tekjuskatti, lægri tekjuskatti en öll önnur fyrirtæki njóta á landinu nema þau sem hafa sérstaklega samið um það. Við veittum undanþágu frá stimpilgjöldum. Félagið er undanþegið stimpilgjöldum af öllum stimpilskyldum skjölum sem félagið gefur út eða stofnað er til í tengslum við uppbyggingu fjárfestingarverkefnisins. Við gáfum afslátt af hlutfalli fasteignaskatts. Það skal vera 50% lægra en lögbundið hámark, 50% afsláttur af fasteignaskatti. Svo eru menn undanþegnir almennu tryggingagjaldi sem við höfum almennt verið sammála um að við eigum að nota til að standa undir almannatryggingakerfinu á Íslandi. Undanþágur frá tryggingagjaldinu. Svo eru menn með ýmis önnur ákvæði, t.d. um að ekki skuli leggja á fyrirtækið umhverfisgjöld eða umhverfisskatta nema verið sé að gera það með almennum hætti í landinu. Ekki gjöld á raforkunotkun eða útblástur lofttegunda eða aðra losun úrgangsefna nema verið sé að gera það með almennum hætti o.s.frv.

Svo kannski rúsínan í pylsuendanum, það sem gerði gæfumuninn fyrir viðkomandi fyrirtæki, það sem leiddi til þess að það var á endanum tilbúið til að koma, en þá buðum við að við mundum slíta upp úr vasa skattgreiðenda 3 milljarða rúma til þess að fara í alls konar undirbúningsaðgerðir svo að þeir mundu örugglega vilja koma til Íslands. Mér finnst bara ekki hægt annað en að vekja athygli á þessu þegar menn tala af mikilli vandlætingu um öll þau tilvik þegar fyrirtæki reyna að lágmarka skattgreiðslur sínar í alþjóðlegum viðskiptum. Við erum sjálf að draga til landsins fyrirtæki með sérstökum ívilnunum og við höfum á tíðum verið tilbúin til að ganga eins langt og mögulegt er samkvæmt ríkisaðstoðarreglum í þeim tilgangi.

Þetta segi ég og ég vil taka það sérstaklega fram að þetta er hluti af umræðunni um löglega lágmörkun skattgreiðslna í alþjóðlegum viðskiptum. Þetta hefur ekkert með skattsvik að gera. Og við þurfum að halda því og þeirri umræðu í sérstöku boxi, vegna þess að það er algjör einhugur hér um það að við ætlum ekki undir neinum kringumstæðum að þola skattsvik. Við ætlum undir engum kringumstæðum að líða mönnum það að brjóta skattalög. Og við ætlum að beita stofnunum okkar af fullum krafti við að uppræta slíkt. En skattsniðgangan er annars eðlis. Hana er ekki hægt að binda eingöngu við félög sem hafa haft starfsemi eða eignir á lágskattasvæðum.

Ég ætla síðan að hnykkja á því sem áður hefur komið fram að hluti af þeirri skoðun sem ég tel nauðsynlegt að ráðast í verður til meðferðar í sérstökum starfshópi. Þetta hefur áður komið fram. Þess er reyndar getið í greinargerð með þessu frumvarpi. Að öðru leyti munum við halda áfram alþjóðlegu samvinnunni sem hefur reynst okkur vel og er að skila miklum árangri. Ég vil sérstaklega nefna það mikla átak sem OECD hefur ráðist í undir forustu Angels Gurría og þann ótrúlega árangur sem það átak hefur leitt til með gerð fjölmargra samninga.

Að þessu mæltu býð ég fram aðstoð ráðuneytisins í öllum störfum nefndarinnar.