145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:22]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja þá þingmenn sem eru í þinghúsinu afsökunar á því að þetta mál sé komið á dagskrá, en það vissu allir að ég mundi tala í málinu. Það verður einhver bið á þingstörfum þangað til málinu lýkur en það er ekki á mína ábyrgð og endurtek ég það. Ég fór fram á að þessi mál yrðu rædd saman, það mál sem er nokkurra daga gamalt og mál sem ég lagði fram snemma í nóvember, en það munar um þúsund númerum á þeim þingskjölum sem um er að ræða. Það hefur verið hefð í þinginu að mál þingmanna eru tekin eftir málsnúmerum, þeir þingmenn sem leggja mál sín fram fyrr eiga meiri séns á því að málin séu tekin til umræðu og 1. umr. ef málsnúmerin eru lág. En sífellt er verið að búa til nýjar reglur, sem er líklega á ábyrgð forseta og forsætisnefndar.

Það er afar erfitt fyrir þingmenn að starfa undir slíkum kringumstæðum, sérstaklega í ljósi þess að sú þingsályktunartillaga sem ég ætlaði að ræða sameiginlega með þessu máli hefur verið lögð fram áður. Hún var fyrst lögð fram árið 2011 sem breytingartillaga við tillögu þáverandi meiri hluta ríkisstjórnarflokkanna um að rannsaka einkavæðingu bankanna hina fyrri einu sinni enn. Það varð ekki útrætt það ár og málið var lagt fram aftur þingveturinn 2012 og náðist þá í gegn. Hv. þingmaður og framsögumaður málsins, Ögmundur Jónasson, vísaði í að það hefði verið samþykkt árið 2012 að hefja einu sinni enn rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri og var þessi tillaga mín þá líka lögð fram sem breytingartillaga en var felld eftirminnilega, sem gefur vísbendingar um það að fyrrverandi stjórnarflokkar, Vinstri grænir og Samfylking, vilji ekki að einkavæðing bankanna, hin seinni, verði rannsökuð. Þetta var mjög einkennilegt. Ég hef sagt áður að síðan þá hef ég lagt þetta fram a.m.k. tvisvar sinnum sem sjálfstætt þingskjal og ekki fengið málið rætt.

Það er nú svo að nokkur vandi var á höndum þegar 28 þingmenn samþykktu á síðasta kjörtímabili að hefja eina rannsókn í viðbót á einkavæðingu bankanna hinni fyrri, 28 þingmenn, meiri hluti þingmanna treysti sér ekki til að styðja þá tillögu að fara af stað með fullrannsakað mál og tillögu um nýja rannsókn. Þess vegna hefur dregist að taka á því máli, því að fram að því hafði verið mikill peningaaustur í þær rannsóknarnefndir sem var búið að stofna á vegum þingsins. Ber þar að nefna rannsóknarnefnd Alþingis sem ég vísaði í áðan, það var rannsóknarnefnd um Íbúðalánasjóð og rannsóknarnefnd um sparisjóðina. Fór kostnaður við nefndirnar í hátt í 1,5 milljarða. Þess vegna var pólitískt samkomulag um að breyta þyrfti því og að þetta yrðu nefndir sem væru ekki óendanlegar, eins og raunin varð með þessar nefndir og sífellt verið að bæta við og peningar sóttir í gegnum forsætisnefnd í fjárlög til þess að uppfylla fjárkröfur nefndanna. Það er vel.

Það verður líka að passa, og ég hef rætt það í þingsályktunartillögu minni og úr ræðustól þingsins og í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bæði kjörtímabilin sem ég hef setið á þingi, að ekki má stofna til rannsóknar eða rannsóknarnefnda á vegum þingsins í pólitískum tilgangi, til að koma höggi á andstæðingana. Þess vegna hef ég talað fyrir því að a.m.k. meiri hluti þingmanna þurfi að samþykkja rannsóknarnefndir. Helst hefði ég viljað sjá þá breytingu á lögum um rannsóknarnefndir sem fór í gegnum þingið í síðustu viku að aukinn meiri hluta þingmanna þyrfti til að fara af stað með rannsóknarnefndir, til að tryggja að það væru ekki pólitískar hefndaraðgerðir, eins og virtist glitta í á síðasta kjörtímabili, sérstaklega þegar farið var af stað með rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna hina fyrri enn einu sinni, ég fór yfir það í andsvari hversu oft er búið að rannsaka einkavæðingu bankanna hina fyrri.

Ég hvet fólk til að fara inn á vef Ríkisendurskoðunar, rikisendurskodun.is, velja flipa sem ber nafnið Annað og finna undir honum skjöl með því að smella á hlekk sem vísar manni á hv. þm. Vilhjálm Bjarnason, en þar svarar Ríkisendurskoðun aðdróttunum hans og efasemdum um aðkomu þýska bankans að sölu Búnaðarbankans. Ríkisendurskoðun fór vel yfir þau mál árið 2006 og er því svarað á að mig minnir 46 fylgiskjölum. Ég vil biðja þingmenn sem láta sig þau mál varða að skoða það vel því að einhvern veginn virðast fáir vita um tilvist þessara skjala. Ég bendi líka á kafla 6 í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, sem snýr að rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri. Í nefndinni átti sæti Tryggvi Gunnarsson sem nú er umboðsmaður Alþingis, hann var það líka þá, en það er svolítið merkilegt að hann er fenginn til að koma inn í þingið með nafnlaust bréf og nafnlausar sakir og hvetja til þess að þessi mál verði skoðuð á nýjan leik. Eins og ég hef sagt hefur málið fengið alveg dæmalausa flýtimeðferð í þinginu, það liggur greinilega mikið á pólitískt að koma því af stað og rannsóknarnefnd um einkavæðingu bankanna hina seinni, tillaga um hana liggur ekki sem þingskjal samhliða eins og ég var búin að biðja um.

Varðandi þessi mál er rétt að geta þess að frá því að ég lagði fram þingsályktunartillögu þessa og breytingartillögu hef ég alltaf talað fyrir því að uppfylla ætti kröfu síðustu ríkisstjórnar varðandi rannsóknarnefnd Alþingis, að skoða einkavæðingu bankanna hina fyrri með því að tengja þessar tvær rannsóknir saman. Mér finnst það eðlilegt og var ég fyrsta manneskjan til þess að minnast á það og tala fyrir því að þær rannsóknir yrðu tengdar saman og væru þá saman í einni nefnd, rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni fyrri og rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni seinni, sem átti sér stað á haustdögum 2009. Til þess að fyrirbyggja misskilning, virðulegi forseti, því að sumir hafa gripið í að ég sé að tala um það, sem sýnir hvað þingmenn eru illa lesnir í þessum málum, hefur verið slegið upp að ég sé að tala um endurreisn bankanna sem átti sér stað á haustdögum 2008. Ég er ekki að tala um það. Það gekk allt saman vel fyrir sig og smurt og tókst með ótrúlegum hætti að endurreisa bankana eftir bankahrunið á grunni neyðarlaganna og hafi þeir þakkir fyrir það sem að því stóðu.

Ég er að tala um það sem kom í kjölfarið þegar einkavæðing bankanna, hin síðari, átti sér stað. Það var á haustdögum 2009. Atburðarásin byrjaði í febrúar/mars það ár og vel hægt að afmarka það tímabil. Þetta spannar níu mánaða tímabil í sögu þjóðarinnar, vel afmarkað. Úti á nefndasviði liggja gögn sem snúa að þessu máli, sem að vísu hvílir leynd yfir, en ég hvet þingmenn til að kynna sér þetta.

Svo er ég búin að eyða nokkrum tugum mánaða í að reyna að fá svör frá kerfinu sem snúa að þessum tíma. Það hefur reynst mjög erfitt sem sýnir að kerfið er ekki alveg tilbúið til að gefa þær upplýsingar þjóðkjörnum þingmönnum og eftirlitsnefnd þingsins. Rétt er að geta þess að þann 27. apríl skrifaði meiri hluti fjárlaganefndar bréf sem var sent til ríkisendurskoðanda 2. maí síðastliðinn og ég er enn að bíða eftir svörum við þeim spurningum sem þar eru.

Ég ætla að vísa í það bréf, til þess að reyna að ýta á hin opinberu embætti að svara fjárlaganefnd. Sem dæmi spyr ég um nafnverð krafna sem voru fluttar til Arion á stofndegi hans á haustdögum 2009 og á hvaða verði þær voru fluttar yfir. Var framkvæmt mat á áætluðu virði þeirra? Var gengið frá fullnaðaruppgjöri Kaupþings við Seðlabankann? Varð Seðlabankinn fyrir tjóni vegna þessara tilfærslna? Þetta eru m.a. þær spurningar sem ég hef lagt fyrir og hef beðið eftir svörum við í mánuð. Ég vona að þessi umræða í dag flýti svörum frá embættinu því að þá getum við, án aðstoðar þingsins má segja, vegna þess að þingið er ekki tilbúið til þess að stofna rannsóknarnefnd um einkavæðinguna hina seinni, farið að sýna landsmönnum hvað gerðist þá daga þegar bankarnir voru einkavæddir í annað sinn án útboðs, raunverulega fluttir til kröfuhafa á einni nóttu.