145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[20:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi í tilefni af ræðu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur segja að ég sem nefndarmaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd er sammála henni um að það sé ástæða til þess að fara yfir einkavæðinguna hina síðari og að það eigi eftir að leiða ýmsa hluti í ljós um þá atburðarás. Ég er sammála því. Ég er hins vegar ekki jafn sannfærður og hún um að rétt sé að tengja þetta tvennt saman. Sú rannsókn sem liggur fyrir í þeirri þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu er mjög afmörkuð um tiltekin atvik sem tengjast einkavæðingu bankanna 2002–2003. Ég átta mig ekki á því að það sé efnislegt hagræði af því að tengja það við þá atburði sem áttu sér stað árið 2009. Ég held í raun og veru að það sé heppilegra að hafa tvær aðskildar rannsóknir þar sem hvor rannsókn hefur sitt andlag, sínar rannsóknarspurningar, og atburðarás sem þarf skýra.

Ég get verið sammála hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur um að búið er að leiða mjög margt í ljós um einkavæðingu bankanna hina fyrri. Það sem hefur hins vegar gerst í þessu máli er að það eru vísbendingar um að nýjar upplýsingar séu komnar fram sem geti breytt þeirri mynd sem við höfum af atburðarásinni í því tilviki og hugsanlega leiði þær í ljós atriði sem fram að þessu hafa verið a.m.k. umdeild. Ég held að hægt sé að gera það í tiltölulega stuttri rannsókn og fá á hreint hvort þarna sé um að ræða raunveruleg gögn sem breyta myndinni. Þess vegna styð ég tillöguna sem hér liggur fyrir og vona að hún nái fram að ganga.