145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[22:35]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég verð að lýsa vonbrigðum mínum yfir því að ráðherrann skyldi ekki taka boðinu og koma í ræðustól og ræða þessi mál við okkur. Eins og ráðherra veit kom það fram hjá allsherjar- og menntamálanefnd þegar sambærilegt mál var afgreitt í fyrra að formaður nefndarinnar var óhress og hún er örugglega jafn óhress nú með að þurfa að flytja þetta mál, enda er liðinn dágóður tími frá því að það var undirritað og það hefur legið fyrir. Það kom fram hjá sambandinu á fundi okkar í nefndinni að þeir töldu að kominn hefði verið á samningur í febrúar og áttuðu sig ekki á því hvers vegna þetta var ekki undirritað fyrr en í apríl. Eitthvað hefur augljóslega tafið í ráðuneytinu og það þarf ráðherrann að skýra og þá um leið hvers vegna hann flytur málið ekki sjálfur. Það er erfitt að bera fyrir sig töfum þegar tímalínan virðist liggja með öðrum hætti í þessu.

Þetta hangir líka allt saman á þeirri framtíðarsýn sem birtist manni í plaggi sem samningsaðilinn, þ.e. Samband íslenskra sveitarfélaga, afhenti okkur. Samningurinn var afhentur á fundinum eða ég fékk hann afhentan. Það kemur fram í frumvarpinu að ráðherra hyggst aflétta óvissuástandi sem hefur staðið yfir síðustu árin og hefur haft veruleg áhrif á starfsemi tónlistarskóla. Hann hefur áform um að stofna nýjan listframhaldsskóla sem á að hefja starfsemi í upphafi næsta skólaárs. Það er með þetta eins og aðrar breytingar sem gerðar hafa verið á menntakerfinu í tíð hæstv. ráðherra, þær koma ekki alltaf inn á þing á þann hátt sem best væri til þess fallinn að ná um þær sátt. Það er alla vega alveg klárt að hægt er að gera betur. Þegar kemur að samtali og samráði, eins og var rakið af hálfu hv. þm. Katrínar Jakobsdóttur, virðist það vera svo. Það kom líka fram á fundi nefndarinnar að tónlistarskólafólkið virðist ekki vera partur af samtalinu. Það er verulega slæmt að það skuli hafa verið þannig og eiginlega alveg ótrúlegt. Maður gæti yfirfært þetta á hvaða starfsemi sem er, ef þeir eru ekki teknir með sem eiga að sinna verkinu þá stefnir í óefni.

Nefndin ákvað að láta sig hafa það að flytja frumvarpið þrátt fyrir þann slugshátt, vil ég segja, að þetta skyldi ekki vera gert og engum er ljúft að gera það á þennan hátt. Hins vegar leysir frumvarpið ákveðinn vanda og m.a. gerir það jöfnunarsjóði kleift að rukka sveitarfélögin og greiða svo út tiltekin verkefni, sem það hefur ekki heimildir til að gera eins og staðan er í dag. Það er auðvitað ólíðandi. Það hefur legið fyrir frá því í fyrra að ekki hefði þurft að eyða miklu púðri í þá vinnu því að um er að ræða sömu verkefni og þá.

Það er vissulega verið að skerpa aðeins á. Það á að gera þjónustusamninga við tónlistarskólana sem ekki eru reknir af sveitarfélögunum. Það er verið að skerpa aðeins á línunum og sérstaklega varðandi mistúlkun hjá Reykjavíkurborg, eins og hv. formaður nefndi. Það er verið að hreinsa andrúmsloftið eitthvað.

Það verður að segjast eins og er að vinnubrögðin eru þau að við látum gera frumvarpið og fáum gesti nánast á sama tíma. Í staðinn fyrir að frumvarpið sé lagt fram af ráðherra sem mælir fyrir því og svo fari það í hefðbundið umsagnarferli og síðan til nefndarinnar þá gerist þetta allt á sama tíma.

Það hefur komið fram að þetta breyti afskaplega litlu hvað varðar launamálin nema í stuttan tíma og leysi í sjálfu sér ekki þann vanda sem við vitum að sumir tónskólarskólanna eru í, þótt aðrir hafa það af. Sú óvissa sem mismunandi túlkun á síðasta verklagi olli er mjög bagaleg þótt ekki sé við neinn að sakast. Allan þennan tíma hefur legið fyrir að það er gat sem þarf að stoppa í. Þrasið við Reykjavíkurborg hefur kostað heilmikil vandræði.

Í frumvarpinu er talað um stuðning við tónlistarnám nemenda hvaðan sem þeir koma af landinu en samt sem áður er talað um ákveðinn kvóta, sveitarfélögin geta sett kvóta á nemendur. Það kom fram hjá Reykjavíkurborg að líklega verður það niðurstaðan þar, til þess að halda rammann, þ.e. að fara ekki umfram þær krónur sem eru lagðar til.

Það eru önnur verkefni hérna sem snerta ekki tónlistarnámið. Ég velti fyrir mér í fyrra og geri það líka núna hvernig þetta hangir saman, skuldbinding sveitarfélaga gegn því að fá stuðning við tónlistarnámið. Þau eiga auk þess að leggja til fjármuni og inni í því hanga samningar við sumardvalarheimilið í Reykjadal upp á tæpar 30 milljónir, Tölvumiðstöð fatlaðra upp á tæpar 10 milljónir og Vistheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi fyrir fatlað fólk upp á 63 milljónir. Svo er aftur tekinn 30 millj. kr. hluti til lausnar á bráðavanda tónlistarskólanna sem var í jöfnunarsjóðnum og tilheyrði húsnæðismálum áður. Það er að frumkvæði sambandsins, en er aðeins til að reyna að leysa þetta bix og það gerðist líka í fyrra. Það er ekki það að þeir hefðu ekki viljað fá inn nýja peninga til þess að leysa þau mál, því að það eru ekki öll sveitarfélög það vel stödd með félagslegar íbúðir sínir að þau þurfi ekki á jöfnunarframlaginu að halda. En þarna undir eru mjög ólík málefni, meira að segja svo að þessar fjárhæðir duga ekki til rekstursins, eins og í tilviki Vistheimilisins Bjargs, þar kemur Hjálpræðisherinn á móti til þess að það gangi. Þetta kom einmitt fram í umsögnum um málið í fyrra.

Þetta er bandormur. Það er verið að breyta nokkrum lögum. Það er verið að breyta lögum um námsgögn, um grunnskóla og um tekjustofna sveitarfélaga. Varðandi af hverju þetta hefur dregist svona þá sögðu þau okkur að þau töldu sig hafa verið búin að ná samkomulagi í febrúar um Endurmenntunarsjóð grunnskóla, en skólunum hefur gengið illa að koma á endurmenntunarnámi. Við þekkjum að mesta framboðið er gjarnan í ágúst þegar kennarar fara í endurmenntun, þá hefur ekki verið hægt að klára þetta til þess að þeir geti sótt í. Þess vegna leggja þau áherslu á að þetta mál fari í gegn, enda er það að mörgu leyti ólíkt því sem verið hefur nema verið er að skerpa á.

Eftir stendur að hér undir er framtíðarsýn ráðherrans að einhverju leyti án þess að hún hafi verið rædd, þ.e. tónlistarháskólinn, (Gripið fram í.) tónlistarskóli í framhaldsnámi heitir það. Það kemur fram hjá sambandinu að drátturinn sem hefur orðið á undirritun samkomulagsins skapi hættu á því að tímasetningarnar sem eru í 6. gr. standist ekki. Þar kemur fram, og það er það sem ég vildi vera alveg viss um að ég væri ekki að undirrita, að það eigi bæði við um stofnun nýs listframhaldsskóla og gerð þjónustusamninga milli sveitarfélaga og einkarekinna tónlistarskóla. Fjallað er um viðbrögð ef hið fyrrnefnda gengur ekki eftir, en svo er tekið fram að ef upp kemur ágreiningur um framkvæmd einstakra verkefna eða þátta í samkomulaginu geti aðilar vísað honum til Jónsmessunefndar.

Allt leggst þetta á eitt, seinagangur í verkefni sem liggur fyrir að þarf að leysa og annaðhvort fara menn allt of seint af stað í að reyna að leysa það eða ætla sér allt of lítinn tíma til þess. Ég held að það sé alveg ljóst miðað við þessa framgöngu. Ég trúi því að ráðherra svari því á eftir og eins um vinnuna að undirbúningi nýs frumvarps til nýrra laga um tónlistarskóla, sem hefur verið í ferli frá 2013 eða hvað það nú er. Við hljótum að þurfa að fá skýringar á því hvað veldur því að þetta tekur allt svona langan tíma.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég hef komið því á framfæri sem ég vildi segja um þetta mál. Þótt ég sé óhress með að standa að því að flytja það þá ætla ég ekki að stuðla að því að tónlistarskólarnir og þau verkefni sem ég taldi upp áðan verði enn verr stödd eða áfram í vandræðum. En þetta eru óásættanleg vinnubrögð í alla staði og ráðherra á ekki leyfa því að gerast hér ítrekað.