145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

staða og rekstrarvandi framhaldsskólanna.

[15:49]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Framtíðarsýn hæstv. ráðherra er ágæt eins langt og hún nær. Þar er forsendan sú að sá sparnaður sem hlýst af styttingu framhaldsskólans skili sér allur inn í rekstur framhaldsskólans og við mundum þá sjá hærri framlög á hvern nemanda, út á það gengur dæmið. En ákveðinn trúverðugleikavandi blasir við. Hann upplifir maður sterkt þegar maður fer í heimsókn í framhaldsskóla, eins og ég gerði á dögunum — ég fór í heimsókn í Verkmenntaskólann á Akureyri — og líka þegar maður gúglar: „rekstrarvandi framhaldsskólanna“, sem ég gerði núna áðan.

Í heimsókninni í Verkmenntaskólann sér maður að verið er að halda þeim skóla, og raunar fleiri skólum, í heljargreipum út af hallarekstri sem er brotabrot af heildarrekstrarumfangi skólans. Þetta bitnar bara á nemendunum. Þessi harðneskja rímar ekki við framtíðaráætlanir hæstv. ráðherra og hugarþel hans, sem hann lýsti hér áðan. Af hverju fordæmir hæstv. ráðherra ekki þessar aðferðir gagnvart framhaldsskólunum sem bitna á nemendum og eru algert nýmæli, og hlýtur að eiga að leiðrétta? Svo þegar maður gúglar, eins og ég sagði, rekstrarvanda framhaldsskólanna sér maður að hann hefur verið ansi lengi. Það er eins og við getum aldrei fjármagnað þetta almennilega. Þetta eru fréttir alveg langt aftur á síðustu öld, rekstrarvandi framhaldsskólanna, skýrslur um hann.

Ég velti því stundum fyrir mér í almennu samhengi þegar borin er saman auðlegð þjóðanna og sagt að við séum eitthvert ríkasta land í heimi: Erum við það? Getum við ekki fjármagnað tækjakost og almennilega kennslu, laun og aðbúnað (Forseti hringir.) nemenda í framhaldsskólum á Íslandi? Ég segi bara eins og skáldið: Hvar eru peningarnir?