145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

búvörusamningur með tilliti til umhverfis- og náttúruverndar.

[16:12]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Að mínu mati er búvörusamningurinn sem er til umfjöllunar í þinginu um þessar mundir stórslys frá umhverfisfræðilegu sjónarmiði og mögulega einn versti gjörningur stjórnvalda í umhverfismálum um áratugaskeið. Hann mun leiða til gríðarlegs fjárausturs, milljarðatugar í það minnsta, til að greiða kjöt ofan í neytendur á erlendri grundu. Jón V. Jónmundsson, einn helsti sérfræðingur landsins á sviði sauðfjárræktar til margra áratuga, skrifaði í byrjun apríl grein um skort á framtíðarsýn við samningsgerðina og þar stendur m.a.:

„Stuðningur er fluttur frá svæðum með mest landgæði yfir til þeirra sem slakar standa.“

Enn fremur:

„Í 5. gr. samningsins birtist einn ótrúlegur fortíðardraugur á svið. Þar er fjallað um gripagreiðslur …“

Ólafur Arnalds prófessor segir um gripagreiðslurnar á sinni heimasíðu:

„Fallið hefur verið frá slíkri aðferðafræði víðast um heiminn, m.a. í Evrópu, enda leiðir þessi aðferð mjög oft til offramleiðslu sem tengist ekki þörfum fyrir framleiðsluna eða ástandi lands sem nýtt er til framleiðslunnar. Gripagreiðslur eru andstæðar umhverfissjónarmiðum. Auðvelt er að sýna hvernig þessi aðferðafræði leiðir til fjölgunar sem getur orðið fullkomlega stjórnlaus, en bæði reynsla og vísindalegar rannsóknir hafa sýnt fram á slík tengsl.“

Að mínu mati er fullkomlega glórulaust að samþykkja samning sem leiðir til fjölgunar sauðfjár á Íslandi. Í fyrsta lagi er enginn markaður fyrir aukningu á framleiðslunni. 33–37% eru flutt út í dag með margra milljarða styrk frá almenningi. Í öðru lagi er fjölgunin óháð umhverfislegum aðstæðum, haglendi og ástandi landsins. Slík aðferðafræði er beinlínis umhverfisfjandsamleg. Að mínu mati kallar samningurinn á svör við eftirfarandi spurningum:

Að hvaða vinnu og markmiðssetningu var unnið í tengslum við gerð nýrra búvörusamninga á sviði landnýtingarmála og umhverfismála?

Var gerð greining á þörf hinna ýmsu byggðarlaga fyrir stuðning við sauðfjárrækt?

Var með einhverjum hætti litið til misjafns ástands lands við gerð samninganna?

Var gerð greining á því hvar stuðningur gæti verið andstæður atvinnuþróun í dreifbýli þar sem ýmiss konar aðrar atvinnugreinar eru í örum vexti?

Hvað voru gerðar margar landbótaáætlanir fyrir afrétti annars vegar og heimalönd hins vegar á grundvelli gildandi reglugerðar um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu?

Voru allar landbótaáætlanirnar staðfestar af Landgræðslu ríkisins og Matvælastofnun fyrir afrétti annars vegar og upprekstrarlönd hins vegar? Ef ekki, hve margar fengu ekki slíka vottun? Og eru einhverjar afréttir sem ekki fá vottun í samræmi við landnýtingarþátt gæðastýringar í tengslum við sauðfjárframleiðslu? Ef svo er, hvaða afréttir eru það?

Ég hef ekki komið beint að umfjöllun þingsins um þessa samninga en ég fékk að koma inn sem afleysingamaður á einn fund atvinnuveganefndar. Ég setti fram sumar þeirra spurninga sem ég fór með hér og fékk ekki fullnægjandi svör. Ég óskaði eftir því að eiga umræðu um þessi mál við hæstv. umhverfisráðherra sem gat ekki orðið við því en ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir að eiga við mig orðastað um þetta mál, enda þekkir hann mætavel til þessara samninga, bar ábyrgð á þeim á fyrri stigum, og þess vegna vil ég að þessi umræða sé tekin hér. Hér er um að ræða gríðarlega stórt mál, mikla hagsmuni og mikla fjármuni.

Þetta er til mjög langs tíma og maður hlýtur að velta fyrir sér hvort ekki sé eðlilegt að frekari umræða verði um slíka framkvæmd og þann undirbúning sem býr að baki, sérstaklega í ljósi þess að nú nálgast kosningar. Það eru u.þ.b. sex mánuðir þangað til gengið verður til kosninga á Íslandi. Maður verður þess vegna líka að velta upp þeirri spurningu hvort ekki sé full ástæða til að svona samningur sé borinn undir kjósendur áður en hann fer í gegnum þingið. Ég held að það hljóti að teljast eðlileg krafa. Ég held að það hljóti að vera þeim í hag sem bera þetta mál fram og hafa fyrir því sannfæringu að leggja það fyrir kjósendur. Það er ekki til farsældar fallið að fara með þetta mál fram í pólitískum ágreiningi eða með þeirri gagnrýni sem þessir samningar hafa fengið meðal almennings og hagsmunaaðila.