145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[17:03]
Horfa

Frsm. velfn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um almennar félagsíbúðir frá velferðarnefnd. Við gerðum allnokkrar breytingar á málinu við 2. umr. og tókum svo málið inn á milli umræðna sem eðlilegt er þegar verið er að vinna að svo veigamiklu máli og gera svo stórar breytingar. Það voru vandkvæði með hvernig ætti að bókfæra stofnframlögin og það varð úr að velferðarnefnd óskaði eftir því að velferðarráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Alþýðusamband Íslands færu yfir málið í sameiningu, enda hafa allir þessir aðilar mikla hagsmuni af málinu. ASÍ ætlar að byggja upp mikið af þessu húsnæði, þetta var hluti af kjarasamningum, og sveitarfélögin og ríkið eiga að veita stofnframlögin.

Þessir aðilar brugðust mjög vel við beiðni velferðarnefndar og funduðu þó nokkuð og fundu að lokum niðurstöðu sem allir aðilar gátu sætt sig við. Þessir aðilar komu fyrir nefndina, auk fulltrúa frá KPMG vegna bókhaldsreglna sveitarfélaga, með þær tillögur sem við höfðum óskað eftir að þau mótuðu fyrir okkur. Við fórum að mörgum af þessum tillögum þótt við höfum ekki gert það í einu og öllu. Eins gerir nefndin minni háttar breytingar til lagfæringa á málinu.

Fyrirsögn frumvarpsins verður breytt að nýju og það fær aftur upphaflega heitið, almennar íbúðir, að ósk Alþýðusambands Íslands sem lagði eindregið til að þessu yrði breytt. Meiri hluti nefndarmanna telur eðlilegt að verða við þessu en einn fyrirvari er við það á nefndarálitinu, frá hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur.

Svo var rætt um leigufjárhæðina því að Alþýðusamband Íslands lýsti yfir miklum áhyggjum af því að við hefðum tekið út svokallaða áfangaskiptingu sem var kveðið á um í frumvarpinu. Við heyrðum sjónarmið Alþýðusambandsins og setjum hér inn heimildarákvæði til deildaskiptingar og munu þá þeir sem nýta sér þessa deildaskiptingu láta leigu miðast við hverja deild fremur en kostnað stofnunarinnar í heild sinni. Það er mikilvægt að þetta ákvæði sé einungis heimildarákvæði því að ýmis leigufélög sem eru að störfum í dag og rekin án hagnaðarsjónarmiða reyna í nafni félagslegrar blöndunar að jafna leigunni á milli mismunandi svæða og eldri og yngri íbúða.

Þá lýsti ASÍ yfir óánægju með að við hefðum sett það inn að ef leigjandi hefði verið yfir tekju- eða eignamörkum í meira en þrjú ár mætti reikna álag á leigu. Alþýðusamband Íslands setti sig upp á móti þessu. Nefndin verður ekki við þessum ábendingum og gerir ekki breytingartillögu, en við bendum á að það er aðeins gert ráð fyrir hóflegu álagi hafi leigjandi um langt skeið haft tekjur eða eignir yfir mörkunum. Við leggjum til breytingu sem er óháð þessu um að vísað verði til síðustu þriggja almanaksára fremur en þriggja samfelldra ára til að skýra að heimildin falli niður fari tekjur eða eignir leigjanda á ný undir mörkin.

Þá komum við að kannski stærsta málinu sem er bókfærsla stofnframlaga. Þar höfum við farið eftir tillögu frá sveitarfélögunum og Alþýðusambandi Íslands en þar voru áhyggjur af því að með því að stofnframlögin væru á öðrum veðrétti eins og kveðið var á um í breytingartillögum við 2. umr. væri hverfandi eigið fé í félögunum sem ætluðu að byggja upp leiguhúsnæði sem mundi torvelda þeim mjög fjármögnun. Úr varð að til verður núna við 3. umr. svokallað skilyrt stofnfé. Það er eignfært af sveitarfélögunum, ef krafist er endurgreiðslu á stofnfénu geta sveitarfélögin eignfært það en það mun teljast til eigin fjár hjá húsnæðissjálfseignarstofnunum og þar af leiðandi mynda eiginfjárgrunn til þess að fá hagfelldari fjármögnun.

Ég kann ekki nógu vel á breytingartillögu við breytingartillögur, frú forseti, en ég ætla að fara yfir þær í lokin svo það verði ekkert fljótandi hér og kem að því síðar.

Við teljum að sveitarfélögum og lögaðilum sem einnig geta fengið stofnframlög verði heimilt að færa stofnframlög ríkis og sveitarfélaga með sambærilegum hætti og kveðum á um að það eigi að fá nánari útfærslu í reglugerð. Hugsanlega þarf þó að breyta lögum til að markmið málsgreinarinnar náist fyrir þessi félög og því erum við með bráðabirgðaákvæði þar sem við felum ráðherra að undirbúa tillögur að lagabreytingum ef þeirra gerist þörf.

Svo kemur að umræðu um höfuðstól krafna um endurgreiðslu stofnframlaga. Í 5. mgr. 15. gr. frumvarpsins segir að endurgreiðsla á stofnframlagi skuli nema sama hlutfalli af verði almennrar íbúðar við endurgreiðslu og stofnframlag nam af stofnvirði hennar. Við ákvörðun endurgreiðslufjárhæðar skuli miða við mat óhlutdrægs fasteignasala á áætluðu söluverði hennar. Nefndin gerir á þessu breytingar og telur að athuguðu máli að þegar stofnframlög eru greidd til baka í kjölfar þess að lán hafi verið greidd upp en ekki að það sé verið að breyta tilgangi félagsins eða selja eignir úr því skuli miða við fasteignamat sem hefur verið uppfært með tilliti til verðþróunar íbúðarhúsnæðis.

Þá gerum við breytingar á greiðslum í Húsnæðismálasjóð. Það var í upphaflega frumvarpinu þannig að félögin áttu að greiða tvo þriðju hluta leigugreiðslna að frádregnum rekstrarkostnaði í Húsnæðismálasjóð þegar lán og stofnframlög hefðu verið endurgreidd ef við ætti. Við í velferðarnefnd lækkuðum þetta í 40% við 2. umr., en Alþýðusambandið, Reykjavíkurborg og Sambandið lögðu til að hlutfallið færðist upp í 60% til að hraða uppbyggingu Húsnæðismálasjóðs. Á móti kemur að Félagsbústaðir hf. og Félagsstofnun stúdenta mótmæltu þessari breytingu. Nefndin fellst á að æskilegt sé að hraða uppbyggingu Húsnæðismálasjóðs en telur þó helst til íþyngjandi að gera eigendum almennra íbúða að greiða 60% af arði af þeim í sjóðinn. Við förum því bil beggja og leggjum til að hlutfallið af þessum greiðslum inn í sjóðinn verði 50% af leigutekjum umfram rekstrarkostnað.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þessum breytingum. Undir nefndarálitið skrifa allir nefndarmenn í velferðarnefnd og eins og áður gat um skrifar hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir undir það með fyrirvara.

Þá vil ég, frú forseti, mæla fyrir breytingartillögum við breytingartillögur. Stofnframlögin voru á öðrum veðrétti á eftir lánum á húsnæðinu en með því að breyta þessu í skilyrt stofnframlög eru þau ekki tryggð með veði. Samband íslenskra sveitarfélaga benti okkur réttilega á að sveitarfélögunum væri auðvitað mikið í mun að tryggja hagsmuni sína og í samkomulagi sem aðilar höfðu gert var kveðið á um fortakslaust veðbann umfram upphaflega lánsfjármögnun eða sambærileg veðhlutföll við endurfjármögnun. Við erum á þskj. 1391 með breytingartillögu frá nefndinni. Við leggjum til að j-liður 8. töluliðar verði dreginn til baka og að í hans stað komi svohljóðandi texti:

„7. mgr. orðist svo:

Óheimilt er að veðsetja almenna íbúð til tryggingar öðrum skuldbindingum en lánum sem upphaflega voru tekin til kaupa eða byggingar á henni og skuldabréfi til endurgreiðslu stofnframlaga. Þó er heimilt að veðsetja íbúðina til tryggingar á lánum sem tekin eru til endurfjármögnunar á upphaflegum lánum, enda haldist veðhlutfall óbreytt eða lækki.“ — Í raun er þetta óbreytt frá þeirri grein sem við erum að breyta en síðan kemur viðbót: „Við veitingu stofnframlags skal þinglýsa kvöð á íbúðina um veðsetningarbannið og um að einungis sé heimilt að nota hana í samræmi við ákvæði laga og reglna sem um stofnframlög gilda að öðru leyti.“

Svo kemur til viðbótar í 5. gr. breytingartillaga sem hljóðar svo og er hún ný:

„Á eftir 1. mgr. 5. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:

Geta skal veðsetningarbanns skv. 7. mgr. 16. gr. í samþykktum.“

Þarna eru hagsmunir sveitarfélaganna tryggðir eins og frekast verður unnt þar sem ef stofnframlögin eigi að vera endurkræf eru þau veðbandalaus þar til lánin hafa verið greidd upp og skilyrta stofnframlagið verður að skuldabréfi með veði í viðkomandi húsnæði.

Ég tel þá að ég hafi farið yfir allar meginbreytingar sem nefndin gerði. Ég vil líka segja, frú forseti, að það hefur verið sérlega skemmtilegt að vinna að þessu máli. Það var ekki alltaf einfalt og við sáum ekki alltaf fyrir okkur hvernig við gætum mögulega klárað það. En það sýnir líka að þegar fólk er tilbúið að vinna saman og fórna minni hagsmunum fyrir meiri getum við í sameiningu byggt upp eitthvað sem er jákvætt og gott fyrir íslenskt samfélag. Um þetta var þverpólitísk samstaða en líka með ráðuneytinu, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg og Alþýðusambandi Íslands. Þarna er víðtæk samstaða. Það skiptir gríðarlegu máli þegar verið er að byggja upp húsnæðiskerfi að um það sé samstaða og það fái að þroskast og eflast svo það verði sjálfbært og nái að mæta húsnæðisþörf. Ég vona að þessi samstaða skili sér í því að þetta kerfi fái áfram að starfa með sömu markmið og verða raunverulega til þess að efla húsnæðisöryggi allra landsmanna.

Ég vil að lokum óska ráðherra innilega til hamingju með að málið sé komið þetta langt. Ég þakka henni líka fyrir þá yfirvegun sem hún sýndi þegar við fórum í miklar breytingar á málinu. Við teljum að við höfum bætt það. Ráðuneytið gerði allt sem í þess valdi stóð til að aðstoða okkur við að gera breytingarnar og ég vil líka nota tækifærið og þakka velferðarráðuneytinu fyrir mjög gott samstarf.