145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

heimild til útboðs vegna nýrrar Vestmannaeyjaferju.

763. mál
[18:58]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. framsögumanni fyrir fyrirspurnina. Ég vil reyndar taka fram að ég ber engan kvíðboga fyrir þeirri hönnun sem er á þessu skipi. Hún er aftur á móti þannig að ekki nokkurs staðar í veröldinni dettur nokkurri þjóð í hug að byggja nýja ferju upp á 70 metra sem gengur 13,5 sjómílur. Eins og ég sagði við hæstv. menntamálaráðherra hérna frammi er það eins og að setja upp gömlu svörtu krítartöflurnar í skólastofurnar, svo ég minnist nú bara á það. (ÖS: Þær dugðu.) Þær dugðu. Ég held líka að Landeyjahöfn muni duga, við þurfum að hafa trú á henni. Við eigum ekki að gefast upp á því að sigla þangað en við þurfum að leggja meira fé í rannsóknir til að tryggja að höfnin sé opin lengur allt árið. Margir einstaklingar, þekktir aðilar í atvinnurekstri og verktakabransa, m.a. sá er stjórnaði gerð hafnarinnar, Dofri Eysteinsson, hafa sagt að það þurfi að lengja austurgarðinn út á rifið til að fá skjól fyrir austanáttinni. Auðvitað mun sandur safnast þar að en það mun taka ár og áratugi og við munum finna lausn á því. Þegar búið er að leggja slíkan garð út á dýpið mun sandurinn væntanlega leita þangað. Það eru margar leiðir. Þegar hugmyndir koma frá leikmönnum í landinu er bara ekki hlustað. Það er mikil vantrú á því hugviti sem býr í hinum venjulega Íslendingi sem hefur leyst málið hingað til og er fyrirtækið Suðurverk t.d. frægt fyrir að hafa staðið sig í þeim stykkjum sem það hefur tekið að sér. Við þurfum að hlusta af gaumgæfni á slíka aðila þegar þeir ráðleggja okkur í því hvernig við eigum að bæta höfnina vegna þess að ég er algjörlega á því að Landeyjahöfn sé komin til að vera. Við þurfum að hafa trú á henni en við þurfum að hjálpa henni við það. Það tók 40 ár að byggja upp höfn í Þorlákshöfn. (Forseti hringir.) Við getum gert það á skemmri tíma í Landeyjahöfn ef við leggjum pening í rannsóknir.