145. löggjafarþing — 123. fundur,  1. júní 2016.

rannsókn á einkavæðingu bankanna, hinni síðari.

330. mál
[22:18]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að þetta mál sé komið á dagskrá og að ég fái að mæla fyrir því, því að það láðist í gærkvöldi að fá að ræða hér tvö sambærileg mál saman, þ.e. tillögu til þingsályktunar á þingskjali 1367 og þá ályktun sem ég ræði hér sem er á þingskjali 392 og er löngu fyrr fram komin. Munar þar tæplega þúsund málsnúmerum. Það var gert samkomulag í þinginu að ég mælti fyrir því máli í dag og að báðum þessum málum yrði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar.

Eins og forseti fór yfir fjallar þingsályktunartillaga mín um rannsókn á einkavæðingu bankanna hinni síðari. Í þingstörfum í vetur hafa lög um rannsóknarnefndir verið uppfærð þannig að textinn sem er í þingsályktunartillögu þessari varðandi rannsóknarnefndina á ekki lengur við. En taka verður tillit til þess í meðförum þingsins því að þegar ég lagði tillöguna fram í nóvemberbyrjun vissi ég ekki hver afdrif slíkar breytingartillögu á rannsóknarnefndunum mundu verða. Það verður því að taka tillit til þess í þingsályktunartextanum.

Hér er lagt til að stofnuð verði rannsóknarnefnd til að rannsaka slita- og skilameðferð Landsbanka Íslands, Glitnis og Kaupþings banka og að nefndin geri opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá föllnu bönkunum yfir í nýju bankana, hverjir voru ábyrgðaraðilar verðmatsins sem fór fram og hvaða forsendur lágu því til grundvallar. Þá á nefndin einnig að fjalla um viðamestu sölu einstakra félaga og eignarhluta í félögum af hendi slitastjórna og skilanefnda gömlu bankanna til nýju bankanna. Þannig verði upplýst hvaða verðmætamat lá til grundvallar, hvernig staðið var að vali á kaupendum á nýju bönkunum, hvernig kaupin voru fjármögnuð og hvaða seljendaáhættur fylgdu sölunni, og jafnframt í hvaða hættu ríkið var sett, ef það var sett í einhverja hættu.

Þá á nefndin eftir atvikum að gera ráðstafanir til þess að hlutaðeigandi yfirvöld fjalli um mál þar sem grunur leikur á að um refsiverða háttsemi hafi verið að ræða eða brot á starfsskyldum, og geri jafnframt grein fyrir þeim málum í skýrslu sinni til Alþingis þegar nefndin hefur lokið störfum.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðurnar hér í kvöld. Það er liðið á kvöldið og fleiri mál á dagskrá. Ég vísa að öðru leyti í samanburð á þessum tveimur þingsályktunartillögum í ræðu minni frá því í gær. Þar kom fram í megindráttum um hvað þingsályktunartillagan gengur; að rannsaka einkavæðinguna hina síðari sem fram fór frá febrúar 2009 til ársloka 2009. Hér er ekki verið að fjalla um endurreisn bankanna sem varð á haustdögum 2008. Það gekk allt mjög vel fyrir sig miðað við aðstæður á þeim tíma, það „panikk-ástand“ sem ríkti hér þegar bankarnir féllu, en bankarnir voru endurreistir á grunni neyðarlaganna og gekk það farsællega. Ég vil að það verði rannsakað þegar kröfuhöfum voru færðir bankarnir á einni nóttu árið 2009 án þess að nokkurs staðar væri verið að gæta að hagsmunum ríkisins eða búið að fjalla um það í einhvers konar einkavæðingarnefnd eins og þegar fyrri einkavæðingin átti sér stað o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég vonast til þess að málið fái víðtækan stuðning í atkvæðagreiðslu á morgun og hljóti sambærilegan stuðning og tillagan sem rædd var hér í gær, og að þessum málum verði þá vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og það reifað og rætt á nefndadögum í næstu viku, í sumar og í ágúst þegar þingið kemur saman aftur. Þá verði tekin ákvörðun um það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, þar sem allir flokkar eiga fulltrúa, hver afdrif þessa máls verða, auk málsins sem rætt var í gær. Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir gott hljóð.