145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

almennar félagsíbúðir.

435. mál
[11:12]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er á sömu slóðum og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir. Hér er verið að greiða atkvæði um nafngift frumvarpsins, hvort það eigi að heita almennar íbúðir eða almennar félagsíbúðir. Nefndin var búin að komast að því að heitið ætti að vera almennar félagsíbúðir en nú er hún að heykjast á því og dregur það til baka og leggur til að heitið verði almennar íbúðir þó að hér sé alls ekki um almennar íbúðir að ræða heldur félagsíbúðir vegna þess að leiguformið er félagsíbúðir.

Ég er sem íslenskufræðingur algjörlega mótfallin því að Alþingi taki sér vald til að breyta tungutaki í íslensku máli til að eltast við pólitíska dynti. Þess vegna leggst ég gegn breyttri nafngift frumvarpsins og get ekki frekar en kollegi minn og íslenskufræðingurinn hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir stutt ákvæðið. Við tökum ekki þátt í svona vitleysu, en ég styð að sjálfsögðu frumvarpið að öðru leyti.