145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

skattar og gjöld.

667. mál
[11:33]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er ýmsum ákvæðum laga breytt. Einna mikilvægast er það ákvæði sem lækkar tryggingagjald um hálft prósent frá 1. júlí, en á ársgrundvelli erum við þar að ræða um u.þ.b. 7 milljarða skattalækkun fyrir atvinnustarfsemina í landinu sem kemur í framhaldi af fyrri lækkunum. Það er mikið fagnaðarefni að við skulum hafa komist í aðstöðu til að stíga þau stóru skref. Að hluta til og með tilliti til næstu ára er sú lækkun þannig fjármögnuð og málið þannig lagt fram að fallið skuli frá þeirri breytingu sem kom frá efnahags- og viðskiptanefnd varðandi samsköttun hjóna. Það eru uppi ólík sjónarmið um hvernig eigi að líta á þau mál eftir því hvort fólk lítur á hjón sem skattaðila eða einstaklinga. Almennt höfum við horft á hjón sem sameiginlega skattaðila, t.d. með yfirfæranlegum persónuafslætti. (Forseti hringir.) En ég tek eftir því að nefndin vill (Forseti hringir.) halda í þá breytingu sem gerð var undir lok síðasta árs. Ég segi fyrir mitt leyti (Forseti hringir.) og með tilliti til ríkisfjármálanna að það er sjálfsagt að láta það koma betur í ljós í haust hvort þörf er (Forseti hringir.) fyrir þessa ráðstöfun til að fjármagna aðrar breytingar í frumvarpinu.