145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

tónlistarnám og jöfnun á aðstöðumun nemenda.

797. mál
[12:54]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Hæstv. forseti þarf ekkert að óttast að ég ætli að tala hér (Forseti hringir.) og lengja þennan fund mjög, en ég ætla hins vegar að segja hér nokkur orð um þetta efni sem er flutt af meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar til að redda eina ferðina enn …

(Forseti (EKG): Forseti vill fá hljóð í þingsal svo hv. þingmaður fái næði til að tala.)

… starfsemi tónlistarskóla í landinu og þá kannski sérstaklega þeirra sem stunda framhaldsnám. Við höfum verið í því á hverju vori að gera þetta á síðustu stundu, að tryggja peninga þannig að tónlistarskólastarfið geti gengið hnökralaust fyrir sig. Nú gerum við það enn og aftur.

Ráðherrann hafði lofað fyrir ári að þetta yrði síðasta skipti sem þetta yrði gert vegna þess að hann hygðist endurskoða tónlistarnámið í landinu, en samt sem áður hefur ekkert gerst í því. Þetta frumvarp kemur frá nefndinni og byggist á samkomulagi sem gert var í apríl sl. Samt sem áður kemur það hér inn á síðustu stundu.

Hæstv. ráðherra vildi drepa því á dreif að hann hefði eitthvað verið að tala um að endurskoða lög um tónlistarskóla, og sagði að nú væri það óþarfi vegna þess að hægt yrði að setja á stofn framhaldsskóla í tónlist til dæmis, sem líkur eru á að hann hyggist gera, með reglugerð. Ég vil hins vegar vekja sérstaka athygli á því að í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar fyrir þetta ár, 2015–2016, er 7. mál á lista menntamálaráðherra heildarendurskoðun á tónlistarnámi hér. Það var beinlínis rangt með farið og það er ekki gott. Því miður er ráðherrann kunnur að því að reyna að breyta skólakerfinu, hann hefur gert gríðarlegar breytingar á framhaldsskólakerfinu án þess að ræða það nokkurn tímann til hlítar í Alþingi og gerir það í gegnum reglugerðir eða fjárlög. Nú síðast hefur hann sagt að hann ætli að gjörbreyta kerfi Lánasjóðs íslenskra námsmanna og vildi koma með það inn í þingið án þess að þingmenn hefðu nokkurn kost á að kynna sér það frumvarp. Ég vil nota þetta tækifæri og fordæma vinnuaðferðir hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.