145. löggjafarþing — 124. fundur,  2. júní 2016.

rannsókn á erlendri þátttöku í kaupum á 45,8% eignarhlut í Búnaðarbanka Íslands hf. o.fl.

791. mál
[14:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Bara til að rifja það upp fyrir þingheimi og hv. þingmanni þá var þriðja spurningin svohljóðandi: Telur hv. þingmaður að rannsóknin sé sprottin af því hugarfari að menn séu að reyna að koma pólitísku höggi á Framsóknarflokkinn? Ég spyr af því að mér fannst hv. þingmaður tala með þeim hætti.

En herra trúr, hvað eiga þingmenn að gera þegar umboðsmaður Alþingis, sem er ein af undirstofnunum þingsins, kemur til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sendir henni skriflegt erindi, rökstutt, ekki mjög ljóst en telur eigi að síður að nauðsynlegt sé að skoða tiltekin atriði; að hann hafi gögn undir höndum sem hann telur að geti upplýst um atburði sem áttu sér stað fyrir 13 árum; á þá nefndin að hafna því? Hvernig í ósköpunum á stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að geta hafnað ósk um slíkt?

Ég vil líka draga það algjörlega skýrt fram að eftir að við samþykktum frumvarp í síðustu viku um rannsóknarnefndir þá hefur forseti Alþingis, að höfðu samráði við undirstofnanir þess, mjög mikið vald til þess að afmarka viðfang slíkra rannsókna. Hv. þingmaður spyr: Á nú enn einu sinni að fara að eyða miklum peningum í að rannsaka mál sem búið er að fullrannsaka? Svarið er: Nei, vegna þess að við höfum forseta Alþingis sem mun teikna upp hvað er rétt að rannsaka.

Ég vil bara segja það út af þessari tillögu sem hv. þingmanni er svo umhugað um: Hefur það komið fram að þingið leggist gegn því að það verði rannsakað ef rök standa til þess? Er það ekki það sem á eftir að skoða í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd? Ég held að þingið hafi ekki með nokkrum hætti lagst gegn því. Svo að ég segi það bara fyrir mína parta þá leggst ég ekki gegn því ef það verður niðurstaða forseta þingsins og stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.