145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

samstarf Íslands og Grænlands.

23. mál
[16:52]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Óttarr Proppé) (Bf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um að efla samstarf Íslands og Grænlands. Flutningsmaður tillögunnar er hv. þm. Össur Skarphéðinsson ásamt fleirum.

Með tillögunni er lagt til að stuðningi verði lýst yfir við söguleg skref sem vina- og nágrannaþjóð Íslendinga á Grænlandi hefur undanfarin ár tekið til aukinnar sjálfstjórnar og að ríkisstjórninni verði falið að efla tengsl og samvinnu við Grænland á 15 sviðum sem nánar er gerð grein fyrir í tillögunni og varða afnám tolla og aukið frelsi í viðskiptum, aukið samstarf og sameiginleg verkefni skóla á öllum skólastigum, eflingu rannsóknarsamstarfs, m.a. á sviðum jökla, hafs, veðurfars, fiskstofna og umhverfis, samstarf á sviði sjávarútvegs og jarðfræði, þróun viðskipta og gerð samkomulags milli samtaka atvinnulífs landanna, samvinnu á sviði læknis- og heilbrigðisþjónustu og gerð rammasamnings um stóreflt samstarf á þeim sviðum, eflingu samstarfs um ferðaþjónustu og möguleika á að gera Grænland að áfangastað ferðamanna sem koma til Íslands, samstarf og ráðgjöf á sviði vatnsaflsverkefna á Grænlandi, þjónustu við hugsanlega starfsemi á austurströnd Grænlands í tengslum við sjálfbæra auðlindanýtingu, sameiginlega framtíðarsýn um nýjar skipaleiðir á norðurslóðum, eflingu samvinnu gegn loftlagsvá, aukningu vöruflutninga um Norður-Íshafið, eflingu starfsemi Vestnorræna ráðsins í því skyni að styrkja enn frekar pólitísk, menningarleg og viðskiptaleg tengsl vestnorrænu landanna þriggja og efla samstarf milli íbúa á vesturhluta vestnorræna svæðisins.

Nefndin fékk til sín talsverðan fjölda af gestum. Við fengum umsagnir frá Hafrannsóknastofnun, Háskóla Íslands, Icelandair Group, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkustofnun, Rannsóknasetri um norðurslóðir, norðurslóðaátaki Háskóla Íslands, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, utanríkisráðuneyti og Íslandsdeild þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál.

Nefndin gerir nokkrar tillögur um breytingar á tillögunni svohljóðandi:

1. Í stað orðanna „að efla tengsl og samvinnu við Grænland með því að“ í 1. málslið 1. mgr. komi: að leita leiða til að efla tengsl og samvinnu við Grænland með áherslu á eftirfarandi.

2. Á eftir orðinu „umhverfis“ í d-lið komi: náttúruverndar, súrnunar sjávar.

3. Á eftir e-lið komi nýr stafliður, svohljóðandi: koma á samstarfi milli grænlensku jarðfræðistofnunarinnar og Orkustofnunar með þátttöku fræðasamfélagsins á sviði málma og annarra hagnýtra jarðefna, með áherslu á stjórnsýslu, rannsóknir og samstarf á alþjóðavettvangi.

4. Á eftir orðinu „umhverfisverndar“ í l-lið komi: og náttúruverndar.

Undir álitið og þessar breytingartillögur rita eftirfarandi fulltrúar í utanríkismálanefnd: Óttarr Proppé framsögumaður, Hanna Birna Kristjánsdóttir formaður, Karl Garðarsson, Vilhjálmur Bjarnason, Frosti Sigurjónsson, Elín Hirst, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Steinunn Þóra Árnadóttir og Össur Skarphéðinsson.