145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Skal gert, hæstv. menntamálaráðherra. Stjórnarþingmenn koma hér upp hver á fætur öðrum og munu gera þá fáu þingdaga sem eftir eru og reyna að telja okkur trú um að stjórnarsamstarfið sé farsælt og gott og hafi skilað miklum árangri. Það er hins vegar þannig að þessir sömu stjórnarþingmenn hafa ákveðið það hver í sínum þingflokki að binda enda á eigið kjörtímabil. Það er ekki vegna þess að stjórnarsamstarfið hafi verið svo farsælt og gott og skilað svona miklum árangri, heldur þvert á móti vegna þess að erindi þeirra er algerlega þrotið, samstarfið er í molum og við sjáum ekki neinn árangur af stjórnarstarfinu og höfum ekki gert um langa hríð. Þess vegna er það að þau hafa sjálf ákveðið að binda enda á kjörtímabilið.

Þau hafa hins vegar tekið sér nokkurn tíma í að hrekjast út í þetta horn og treysta sér ekki í kosningar fyrr en 29. október. Maður hlýtur að spyrja eftir blaðamannafund formanns Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra Framsóknarflokksins í gær hvort ríkisstjórninni sé alvara með því að það sem þar var kynnt sé eitthvað sem ástæða hafi verið til að bíða eftir eða sé ástæða til að fresta kosningum vegna. Það sér hver maður í hendi sér að ráðstafanir um óverulegan húsnæðisstuðning tíu ár fram í tímann er ekki málefni sem þarf að fresta kosningum vegna. Ég tek þess vegna undir með formanni fjárlaganefndar, Vigdísi Hauksdóttur, sem benti réttilega á það um helgina að ekkert er því til fyrirstöðu, virðulegur forseti, að rjúfa þing og ganga þegar til kosninga og fá starfhæfan stjórnarmeirihluta í landið sem getur skilað árangri. Það eru margir mánuðir síðan að þessi ríkisstjórn hætti að skila nokkru einasta máli inn í þingið og það eru engin þau mál á dagskrá þessa þings sem ekki mega bíða og afgreiðast bak kosningum.


Efnisorð er vísa í ræðuna