145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[14:43]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég og ég held við öll í Samfylkingunni deilum þeim áhuga með ráðherranum að koma á námsstyrkjakerfi og höfum flutt um það tillögur hér á fyrri tíð. Áhyggjuefni mitt af þessu máli er hins vegar það að þegar maður horfir á málatilbúnaðinn af hendi ráðherrans lítur það þannig út að menn taki núverandi námslánakerfi og fjármagnið sem til þess fer og ákveði að finna leiðir til að fjármagna veitingu námsstyrkja með því að láta þá sem þurfa að taka námslán standa undir þeim kostnaði. Við í Samfylkingunni höfum aldrei litið svo á að það væri nauðsynlegt að hækka vexti á þá sem væru að taka námslán til að standa undir kostnaðinum við veitingu styrkjanna til hinna. Þvert á móti kemur fram í frumvarpinu af hálfu ráðherrans að ávinningurinn af veitingu styrkjanna er aukin framleiðni og betri framgangur í kerfinu sem ríkið auðvitað hagnast á. Er ekki eðlilegt að ríkið fjármagni styrkina algerlega sér og svo gerum við breytingar á námslánakerfinu og að þeir fjármunir sem hingað til hefur verið (Forseti hringir.) varið í það séu þar til ráðstöfunar?