145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[16:15]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel ríka ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu. Eins og ég segi, það er auðvitað eitt að ræða þennan tímapunkt núna og bera saman við þáverandi kerfi eða eitthvað slíkt. Við verðum líka að horfa á tímapunkt í framtíðinni frammi fyrir hverju námsmenn munu standa. Vissulega er rétt að það er mjög eðlilegur hlutur að námsmenn horfi til þess hvaða tekjumöguleika námið muni skapa þeim í framtíðinni. Það er bara eðlilegt. Við höfum litið á það sem mikilvægan part af námslánakerfinu að það sé mikilvægt. En við höfum haft það sem ákveðinn lykilþátt í námslánakerfinu að gera það ekki endilega að lykilspurningunni þegar fólk íhugar nám. Ég tel mikilvægt að það sé ekki endilega alveg lykilspurningin sem fólk muni standa frammi fyrir: Eru háar tekjur í framtíðinni?

Ég fór í íslensku og heimspeki, ég held að á þeim tíma hafi ég ekkert íhugað hvaða tekjumöguleika ég hefði í framtíðinni, en ég fór í það nám sem ég hafði áhuga á og langaði til að mennta mig í. Ef ég hefði á þeim tímapunkti staðið frammi fyrir því að tekjuafborgunin, alveg sama hvert kerfið var kannski tíu árum áður, eða lánaafborgunin hefði verið ótekjutengd, þá hefði kerfið augljóslega verið að segja mér að hugsa meira um það. Bíddu við, er þetta nám kannski það rétta sem ég ætti að fara í miðað við það að ég þyrfti að borga alveg fasta upphæð í hverjum mánuði það sem eftir væri? Mér finnst þetta svo augljóst.

Þetta er auðvitað grundvallaratriði, eins og hv. þingmaður segir, í hugsuninni bak við námslánakerfið að það sé tekjutenging afborgana. Mér finnst nær að reyna að lækka afborganir af námslánum frekar en hafa þær áfram tekjutengdar til þess að taka ekki út þennan mikilvæga þátt í námslánakerfinu, að fólk þurfi ekki endilega að hafa (Forseti hringir.) of miklar áhyggjur af framtíðartekjum.