145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

landlæknir og lýðheilsa.

397. mál
[22:13]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég kveð mér hljóðs í þessu máli til að lýsa bæði undrun minni og hneykslan á þessum málatilbúnaði öllum saman. Eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, og það kemur einnig fram í frumvarpinu, var það þannig að fram til ársins 2011, með leyfi forseta, „úthlutaði fjárlaganefnd Alþingis styrkjum til félaga, samtaka og einstaklinga af safnliðum fjárlaga“. Þessu fyrirkomulagi var breytt við undirbúning fjárlaga fyrir árið 2012 til að tryggja gegnsæi umsókna um styrki úr ríkissjóði. Síðan hefur velferðarráðherra verið með eitthvað og síðan þessi lýðheilsusjóður.

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt með farið hjá mér þegar ég segi að það hafi verið undir stjórn hv. þm. Oddnýjar G. Harðardóttur, þegar hún var formaður fjárlaganefndar, sem þessi breyting var gerð. Hún hafði verið gerð áður og ég minnist þess að í upphafi kjörtímabilsins 2009–2013 lögðu nýliðar á þinginu mikla áherslu á að þessu yrði breytt vegna þess að sannast að segja var það þannig að annars vegar eyddi fjárlaganefnd löngum tíma í að tala við einstaklinga sem voru í forsvari fyrir sjóðum, nefndum eða einhverjum stofnunum og félögum sem sóttu um styrki til fjárlaganefndar og síðan var einnig fjallað um þetta í fagnefndum og þingmenn gerðu sig breiða og úthlutuðu milljón hér og milljón þar. Þetta var sannast að segja bæði gamaldags og úrelt. Það samrýmist ekki nútímastjórnunarháttum að pólitíkusar séu að úthluta sporslum hingað og þangað. Eftir að nokkuð hafði verið talað um þetta bæði í þingsal og í fjárlaganefnd tókst að koma því á fyrir fjárlögin 2012 að þetta yrði afnumið. Síðan voru búnir til einhverjir safnliðir og misjafnt er eftir ráðuneytum hvernig farið er með þá. Sums staðar eru sjóðir eins og bókmenntasjóður eða eitthvað svoleiðis og þá er stjórnin sem leggur eitthvað til við ráðherrann og þar fram eftir götunum.

Að vera þarna með lýðheilsusjóð upp á 245 milljónir og ætla að færa hann yfir til ráðherrans þannig að pólitískur ráðherra geti farið að úthluta úr þeim sjóði til viðbótar við einhverja safnliði sem hann er með og eins og hefur komið fram höfum við ekki upplýsingar um það hér og nú hvað þær upphæðir eru háar, það er fornaldarlegt og þetta er hneykslanlegt og ég lýsi undrun minni á að menn taki þátt í þessu.

Ég tala nú ekki um að þeir umsagnaraðilar sem gera umsögn um þetta frumvarp mótmæla allir, fagráð landlæknis, ég er ekki með nákvæmlega hér hverjir það eru, en sjö fagráð sem svo eru kölluð senda inn umsagnir sem öll mótmæla þessari breytingu. Þá kemur meiri hluti í þingnefnd, pólitískir pótintátar, og segja: Nei, við ætlum ekkert að hlusta á þetta, við ætlum að færa þetta yfir til ráðherrans af því að það er gegnsærra. Af hverju í ósköpunum fá menn bara ekki yfirlit yfir það hverju er úthlutað úr þessum lýðheilsusjóði og ráðherrann getur þá haft það til hliðsjónar eða hann getur fengið sjóði eða fært þessa peninga yfir í sjóðinn þar sem fagfólk úthlutar þessu en ekki pólitískir pótintátar?

Virðulegi forseti. Ég er bæði hneyksluð og undrandi yfir að þetta sé komið hérna.