145. löggjafarþing — 134. fundur,  17. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að ræða aðeins um skáldahúsin þrjú á Akureyri, Davíðshús, Nonnahús og Sigurhæðir, í samhengi við það hversu mikilvægt það er að jafnræðis sé gætt þegar við útdeilum fjármagni. Maður fær oft á tilfinninguna, og það er ekki gott, að það sé tilviljun sem ræður för eða jafnvel tengsl við einstaka alþingismenn eða embættismenn sem tímabundið fara með einhver völd sem þeir geta nýtt sér. Ein ástæða þess að safnliðirnir voru teknir út úr fjárlaganefnd var að gera umsóknarferlið gagnsærra og réttlátara. Það sem hefur gerst með skáldahúsin þrjú á Akureyri er að þau hafa fallið á milli skips og bryggju. Þau fengu styrk á fjárlögum, heilar 2,5 milljónir á ári 2009–2012 en þá féll styrkurinn niður, og síðan þá hafa þessi söfn ekki fengið neinn styrk frá ríkinu.

Ég sendi skriflega fyrirspurn til menntamálaráðherra í fyrra og spurði út í þetta. Þá fékk ég þau svör að söfnin hefðu átt að sækja í menningarsamninga landshluta. Þeir voru einmitt lækkaðir á sama tíma þannig að söfnin áttu sem sagt að sækja í sjóði sem höfðu minna til umráða.

Þegar ég spyr ráðherrann hvort hann telji að gætt hafi verið jafnræðis skáldahúsanna þriggja og annarra sambærilegra menningarstaða er svarið að samningssamband sé á milli mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Gunnarsstofnunar, Snorrastofu og Laxnesssafns á Gljúfrasteini. Þá spyr ég: Af hverju er ekki menningarsamband á milli menningarmálaráðuneytisins og skáldahúsanna þriggja á Akureyri? Mér finnst það fullkomlega óskiljanlegt. Ég kalla eftir því að ráðherra beiti sér eitthvað í þessu máli. Það er óþolandi að úthlutun fjármagns sé tilviljanakennd. Við erum að tala um þrjú söfn sem fá 70–80 milljónir á ári samanlagt. (Forseti hringir.) Ég er ekkert að væla yfir því, þetta eru mjög góð söfn og mikilvæg, en svo eru þrjú söfn sem fá ekki krónu.


Efnisorð er vísa í ræðuna