145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

fjármálastefna 2017--2021.

741. mál
[14:27]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég er kominn hingað upp til að freista þess einmitt að tala skýrt í skattamálum og greina frá því hvað við í Bjartri framtíð viljum í þeim efnum og greinum frá í nefndaráliti okkar þingmanns í fjárlaganefnd. Við viljum sjá miklu meiri áherslu á að innheimta gjöld af auðlindanotkun á Íslandi. Ísland er ríkt af auðlindum og okkur í Bjartri framtíð finnst að við séum einfaldlega að gefa þær auðlindir í burtu og höfum verið að gera um árabil. Við eigum að fá miklu hærri gjöld af notkun fiskveiðiauðlindarinnar eins og verið er að gera í Færeyjum. Við eigum að selja raforku til stórnotenda á miklu hærra verði eins og Landsvirkjun hefur boðað um árabil, það á að gera og sækja þar með fé í opinbera sjóði. Ferðaþjónustan nýtur góðs af gæðum landsins, viðkvæmri náttúru. Við erum ekki að innheimta nægileg gjöld þaðan. Við tölum býsna skýrt í þessu. Við sjáum ekki í þessari fjármálaáætlun að neinar áherslubreytingar séu í þá átt. Bara af þeim ástæðum, svo ekki sé talað um forgangsröðun í útgjöldum sem væri hægt að auka með þessu móti en ekki skattahækkunum á almenning, (Forseti hringir.) þá getum við ekki greitt þessu atkvæði.