145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[14:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera eina athugasemd við það dæmi sem hér er rakið til þess að útskýra áhrif frumvarpsins, það snýr að því að hér erum við að tala um sjálfsaflafé fólks. Við erum ekki að tala um almennar skatttekjur sem er verið að dreifa út eins og var gert í dæminu sem hv. þingmaður tók. Við erum að tala um sjálfsaflafé fólks sem við ætlum ekki að skattleggja. Í því liggur grundvallarmunurinn. Þegar við gefum eftir skatta, tökum ekki af sjálfsaflafé fólks, þá er ekki hægt að líkja því við það að dreifa út af almennum skatttekjum ríkisins til borgaranna. Það er gallinn við þann samanburð sem hv. þingmaður gerði.

Ég verð sömuleiðis að segja að ég hef ekki heyrt þessa gagnrýni jafnt sterkt og gerist í þessari umræðu áður á kjörtímabilinu, en í grunninn er þetta nákvæmlega sama úrræðið og við lögfestum 2014, þ.e. að menn geti tekið út þann séreignarsparnað sem menn leggja fyrir og hann er auðvitað alltaf meiri eftir því sem tekjurnar eru hærri.

Þessari aðgerð jafnar til, eins og kynnt hefur verið, u.þ.b. 3% launahækkunar fyrir þá sem taka þátt. Það sem er í raun og veru verið að segja hér er að það eru þeir tekjulægstu sem ættu að fá mestu launahækkunina ef við þýðum þetta yfir í eins konar launahækkun eins og ég er hér að gera í dæmaskyni. Það er alveg sjónarmið sem hægt er að halda á lofti. Þá vek ég bara athygli á því að við höfum verið með sérstakar aðgerðir sem við erum að leggja milljarða í af almennu skattfé til þess að létta undir með þeim sem til dæmis ætla að búa í almennum félagsíbúðum eða munu fá húsnæðisbætur. Það eru aðrar sérstakar aðgerðir sem við höfum lögfest fyrir þessa hópa. Það er bara komið nóg af því að öllum aðgerðum sem koma millitekjufólki í landinu til góða sé mótmælt. Fyrri ríkisstjórn hækkaði verulega tekjuskattinn á alla yfir (Forseti hringir.) 240.000 kr. Það er fólkið sem hefur farið verst út úr hruninu. Það er fólkið sem var (Forseti hringir.) verst sett eftir hrunið og það er fólkið, millitekjufólkið, sem nýtur mests af þessum aðgerðum.