145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[15:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á að taka undir það sem kom fram undir lokin, við verðum að finna leiðir saman til að byggja undir lækkun vaxta í landinu. Það verður hins vegar ekki gert ef menn vilja taka út 10, 12 eða 13% launahækkun á hverju ári eins og við höfum gert síðasta árið og héðan úr þinginu berast skilaboð um að menn ætli að stórauka ríkisútgjöldin. Þá er alveg öruggt að vextir munu lítið lækka en það er hægt að finna leiðir til að byggja undir meiri stöðugleika og lægri vexti. Það er alveg ábyggilegt.

Það sem mig langaði til að ræða aðeins er að hv. þingmaður gerir það að umtalsefni að mest fari til þeirra sem hafa enga þörf. Ég ætla að vera algjörlega ósammála því. Ef við horfum á hverjar millitekjurnar eru á Íslandi í dag, um 550.000, erum við að setja þak í þessi úrræði rétt rúmlega fyrir ofan millitekjurnar. Mestur fjöldi þeirra sem getur nýtt sér úrræðið er millitekjufólk, fólk sem fékk á sig skattahækkun á síðasta kjörtímabili. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er orðinn þreyttur á því að það sé horft á millitekjufólkið í landinu með þeim augum að það hafi það bara allt of gott, það sé hægt að hækka á það skatta og það eigi að vera skilið út undan þegar menn ætla að grípa til almennra aðgerða vegna þess að það eigi svo auðvelt með að koma sér þaki yfir höfuðið og geti bjargað sér sjálft. Ég held að þetta sé röng nálgun. Ég held að staðreyndin sé sú að fólk sem er einmitt á þessum millitekjum er bara töluvert mikið að strögla við að kaupa sér húsnæði, fólk með laun í kringum 500.000 eða millitekjur með 550.000. Það skal enginn segja mér að það sé bara ekkert mál, það sé bara auðvelt og sjálfsagt fyrir slíkar fjölskyldur að koma sér þaki yfir höfuðið. (Forseti hringir.) Það er ekki þannig.