145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[15:20]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er enginn að segja að það sé auðvelt að koma sér þaki yfir höfuðið. Það þarf að spara og það hefur lengi verið einkenni á íslensku efnahagslífi að sparnaður virðist vera erfiður. Það virðist vera erfitt að leggja fyrir af því að menn hafa verið að keppa við alls konar dýrtíðir í gegnum tíðina, hátt verðlag. Núna er það hátt húsnæðisverð. Það er enginn að segja að þetta sé á einhvern hátt auðvelt. Ég er heldur ekki að boða auknar álögur á millitekjufólk. Ég er að ræða hvatana í þessu. Ef við ætlum að hjálpa einhverjum finnst mér að það eigi að hjálpa þeim meira sem hafa það þá verra en millitekjufólk. Mér finnst að við ættum að hafa hvatann þannig. Þannig er t.d. persónuafslátturinn hugsaður, ef maður er kominn niður fyrir ákveðnar tekjur borgar maður ekki skatt vegna þess að það þykir ekki tilhlýðilegt að taka skatt af svo lágum tekjum. Við erum með þann hvata þar. Af hverju? Vegna þess að það er manneskjulegt, er það ekki?

Hér er hvatinn sá að sá sem er þó í þakinu fær mest og ef maður er einhvers staðar lengst niðri fær maður minnst. Er þetta ekki svona? Í gær vorum við síðan að ræða námslánakerfið þar sem þetta er þannig að þeir sem hafa allra mest borga lægst hlutfall af sínum launum í afborganir af námslánum. Þeir sem hafa minnst borga hæst hlutfall. Mér finnst þetta öfugsnúið og mér finnst þetta undarleg stefna. Ég er ekki að tala neitt um að auka álögur á millitekjufólk þegar ég segi þetta. Ég er að ræða það að á svo mörgum sviðum birtist það bara að þessi ríkisstjórn vill hafa þetta svona. Hún vill að menn fái meira eftir því sem þeir afla meira eða eiga meira. Mér finnst það undarlegt.

Svo er með vextina. Hefur hæstv. ráðherra, svo ég snúi andsvari upp í andsvar, (Forseti hringir.) trú á því að ef við héldum aftur af ríkisútgjöldum til nauðsynlegra fjárfestinga og velferðarmála og borguðum niður skuldir sem við erum blessunarlega að gera mundu vextir lækka á Íslandi? Hvenær sér hann það fyrir sér?