145. löggjafarþing — 135. fundur,  18. ág. 2016.

stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð.

818. mál
[15:27]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Þetta eru búnar að vera áhugaverðar umræður hér í dag og mjög þarfar. Það er alveg ljóst að það mál sem við fjöllum hér um, frumvarp um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, er afar umdeilt eins og hefur greinilega komið fram. Sama hvað hæstv. ráðherra reynir að telja okkur trú um að þetta sé af hinu góða og til þess fallið að bæta stöðu nægjanlega stórs hóps getum við í minni hlutanum ekki fallist á það. Það held ég að við séum sammála um.

Ég tek undir orð félaga míns áðan um að í prinsippi snýst þetta auðvitað fyrst og fremst um það hvernig þetta kemur til með að hvíla á unga fólkinu okkar til framtíðar. Hér er ekki gerð tilraun til þess að velta því fyrir sér hvernig þetta fólk verður statt þegar það verður fullorðið, og það er alveg ljóst að hér er bara verið að velta ákveðnum þunga gagnvart því langt inn í framtíðina.

Þegar hér er talað um meðallaun, eins og hæstv. fjármálaráðherra gerði og alveg eins og þegar talað er um LÍN-frumvarpið, er það mjög blekkjandi. Hjá þessum aldurshópi, 25–34 ára, væri eðlilegast að skoða miðgildi frekar en meðallaun. Ef það er gert lækkar talan hjá hópnum 25–29 ára úr 550 þús. kr. niður í 290 þús. kr., ef tekið er mið af árinu 2014, og niður í 384.400 kr. hjá aldursbilinu 30–34 ára. Það er ekki sú mynd sem ráðherrann og ríkisstjórnin dregur upp nú, enda er svolítill kosningabragur á þessu.

Það er satt að segja líka alveg með ólíkindum að hér hefur legið inni beiðni um svör um skuldaleiðréttinguna frá nokkuð mörgum þingmönnum í stjórnarandstöðunni sem ekki hefur reynst unnt að svara. Samt er verið að ráðast í nýjar aðgerðir sem er auðvitað hálfhjákátlegt þegar ekki liggur fyrir hvað fyrri stóra aðgerðin upp á 80 milljarða gerði, þ.e. hvernig hún kom niður hjá öllum aldurshópum og miklu fleiri spurningar sem eru undirliggjandi og ekki hafa fengist svör við. Það væri áhugavert að ríkisstjórnin færi að hysja upp um sig buxurnar þar og svara þeim spurningum. Það væri vert að spyrja hvort ekki sé ætlunin að gera það fyrir kosningar. Þora menn það ekki? Eða hvað stendur í veginum? Geta þeir það ekki? Vita þeir hreinlega ekki, þrátt fyrir miklar og feitar yfirlýsingar, hvernig þetta kemur út fyrir einstaklinga og fjölskyldur í landinu?

Hér er mikið talað um millihópinn og eins og ráðherrann sagði áðan, sem er auðvitað bara stefna Sjálfstæðisflokksins, að ef þú leggur eitthvað á þig færðu eitthvað fyrir það. Svo er alltaf látið að því liggja að allir búi við sambærilegar aðstæður, þ.e. geti lagt eitthvað á sig í þeirri merkingu orðanna sem ráðherra leggur í þau, væntanlega að eftir því sem maður aflar meira þá fær maður meiri umbun. Hver er þörf fólks með háar tekjur? Við höfum talið að hún væri lítil. En breiðu bökin eru augljóslega hægt að finna. Hér höfum við verið að ræða um auðlegðarskatt og hér áðan var verið að gera því skóna að hann hefðu borið, ég veit ekki hvort það áttu eingöngu að vera fátækar ekkjur eða eitthvað slíkt (Gripið fram í.) og þyrftu að bera ef hann yrði lagður á, en það er hægt að útfæra auðlegðarskatt á margan hátt. Ég held að ríkisstjórnin hefði átt að gera það frekar en að vera með þessa eftirgjöf gagnvart ríkasta fólkinu í landinu.

Meðallaun hjá lífeyrisþega t.d. eru kannski rétt í kringum 200 þús. kr. á mánuði, hann kemst ekki í gegnum greiðslumat, hann er illa haldinn á leigumarkaði o.s.frv. Ég verð að taka undir með þeim sem hér hafa talað og spyrja hvernig þetta komi heim og saman og hvort við sem eigum börn sem eru enn þá heima eigum að gera ráð fyrir því að þurfa að hafa þau heima fram undir fertugsaldurinn eða hvernig þetta eigi að vera. Það er jú langur tími sem fer í það með þessari aðferð að spara. Ég get ekki séð að þetta sé nægjanlega vel útfært. Í frumvarpinu á bls. 4., þar sem lögð er til framlenging á núgildandi úrræði, segir að það séu 37.000 einstaklingar sem hafi tekið þátt í úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán núna í júlí. Ég hefði viljað sjá aldursgreiningu á þessu. Hvaða fólk er það sem helst nýtir sér þetta? Er það þessi illa haldni millitekjuhópur eða hvaða fólk er þetta? Þetta hefði ég viljað sjá.

Svo er það þessi breyting sem talað er um, þ.e. áhrif nýtingar séreignarsparnaðar á greiðslubyrði á höfuðstólinn. Það er talað um að einungis verði hægt að greiða inn á afborganir óverðtryggðra lána. Síðan verður að greiða töluvert lengi áður en maður fær að greiða inn á sjálfan höfuðstólinn. Það er ansi mikil breyting.

Hér eru námsmenn dregnir úr úrtakinu sem hér er tekið dæmi um þrátt fyrir að þeir hljóti að vera að mörgu leyti einn stærsti hópurinn sem hér er um að ræða, þ.e. ungt fólk sem er að klára skóla, vonandi, og er þá að fara beint á leigumarkað. Ekki getur það safnað sér á hinum rándýra leigumarkaði sem hér er ríkjandi. Ég get ekki séð fyrir mér að þetta gangi upp nema hjá þeim sem geta verið heima.

Svo langar mig að tala um vaxtabótakerfið í þessu sambandi, eins og aðeins hefur verið komið inn á. Þar tel ég að jöfnuðurinn sé mestur þegar við horfum til þess að þeir sem hafa gert ráð fyrir að fá vaxtabætur og hefðu haldið áfram að fá vaxtabætur væru kannski meira í færum til að styðja við unga fólkið. Og það unga fólk sem er búið að koma sér þaki yfir höfuðið og hefði gert ráð fyrir þessum fjármunum, gerir það ekki lengur. Það er alveg sama hvernig ráðherra reynir að setja þetta fram, það eru þeir sem hafa hærri tekjur sem koma betur út.

Mig langar að koma aðeins inn á sveitarfélögin. Það er komin yfirlýsing frá þeim um þessi mál. Í þeirri litlu tilraun sem gerð er í frumvarpinu til að meta þetta er fullyrt að hækkun verði á fasteignasköttum vegna aukinna umsvifa á fasteignamarkaði að öðru óbreyttu og það muni vega á móti minni útsvarstekjum sveitarfélaga. Mér þykir djúpt í árinni tekið. Það er vert að minna á að það er ekki bara eitt svæði í byggð í landinu og þegar fasteignabólan svokölluð var í hámarki fyrir hrun þá hækkuðu íbúðir á landsbyggðinni ekki í neinum takti við það sem gerðist á stórhöfuðborgarsvæðinu. Þar af leiðandi er ekki hægt að segja að landsbyggðarútsvarið eða öllu heldur fasteignaskattarnir komi til með að hækka. Það er nefnilega líka skortur þrátt fyrir allt á húsnæði á landsbyggðinni en það sem hefur kannski orðið þess valdandi að fólk er almennt ragt við að byggja úti á landi er, eins og við þekkjum, að það kostar alveg jafn mikið að byggja hús úti á landi og í höfuðborginni en maður fær ekki jafn mikið fyrir það. Sums staðar má afskrifa stóran hluta um leið og flutt er inn. Þar af leiðandi gengur þetta ekki upp hjá ráðherra varðandi sveitarfélögin sem telja sig verða af gríðarlegum fjárhæðum ef frumvarpið nær fram að ganga. Það kemur fram hjá Reykjavíkurborg að hún telji að sveitarfélögin geti orðið af í kringum 15 milljarða. Núgildandi ráðstöfun, það sem er í gildi nú þegar, felur í sér kostnað í kringum 5 milljarða ef fram heldur sem horfir. Ef á að framlengja þetta er kostnaðurinn í kringum 3,2 milljarða. Fyrsta fasteign, sem við erum að fjalla um hér, kostar sveitarfélögin í kringum 720 milljónir á ári. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að bæta sveitarfélögunum þetta? Það er enn þá þannig að málið varðandi Reykjavíkurborg sem hefur verið hér til umfjöllunar er fast inni í nefnd og hefur ekki hlotið neina afgreiðslu. Það er ekki nóg með það, það þarf líka að hugsa um að sveitarfélögin verða einnig að bera kostnað af auknum greiðslum vegna viðbótarlífeyrissparnaðar starfsmanna sveitarfélaga sem leiðir til enn hærra tryggingagjalds. Þetta eru líka hlutir sem skipta máli og ekki hefur verið farið í og ekki leyst úr.

Það er haft eftir borgarstjóra Reykjavíkur í Kjarnanum bara rétt áðan að tapið dreifist víða. Hlutfallslega verður mest tap í Kópavogi, Hafnarfirði og Mosfellsbæ. Hæstv. ráðherra ætti að heyra það líka að í Grýtubakkahreppi verður sérstaklega mikið tap og hefur það vakið athygli. Hér er líka tekið fram að borgin varð af meira en 600 millj. kr. útsvarstekjum í fyrra vegna þessa. Sveitarfélögin í landinu hafa því nú þegar sagt að þau muni ekki una við þetta ef ekki verður eitthvað gert.

Ég sakna þess að sjá ekki framsóknarmenn í umræðunni og velti því fyrir mér hvort þetta séu kaup kaups. Á eftir á að ræða verðtrygginguna og það verður áhugavert að sjá hvort framsóknarmenn mæti í hús og hvort þeir komi til með að tjá sig eitthvað um það eða ekki. Það voru fjórir þingmenn Framsóknarflokksins sem lögðu fram þingsályktunartillögu um að innleiða opinber mótframlög við fyrstu húsnæðiskaup. Ég hefði viljað heyra þessa fjóra hv. þingmenn, Elsu Láru Arnardóttur, Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur, Silju Dögg Gunnarsdóttur og Ásmund Einar Daðason, fjalla um hvað þeim þykir um þessa tilteknu leið. Eru þau sátt eða ekki? Þau ganga lengra í tillögu sinni um úrræði til hjálpar þeim sem stefna að sínum fyrstu fasteignakaupum sem og þeim sem hafa af einhverjum sökum misst húsnæði í sinni eigu og stefna inn á fasteignamarkaðinn að nýju. Úrræðin áttu að koma þessu fólki til hjálpar. Þau vilja byggja kerfið upp á húsnæðissparnaðarleið, ekkert ósvipað og breska ríkisstjórnin kynnti. Þau segja að grunnhugmynd bresku leiðarinnar sé að aðstoða ungt fólk við sín fyrstu íbúðarkaup með opinberum mótframlagi við sparnað. Hvar er þetta fólk núna? Telur það þessa leið ekki færa? Ætlar það að samþykkja hana? Hún er töluvert frábrugðin þeirri leið sem þessir fjórir þingmenn lögðu til. Ég sakna þeirra í umræðunni. Ég tek undir með þeim að það hefur verið ör hækkun á fasteignaverði undanfarin ár. Það eru miklar kröfur um að standast greiðslumat, það er lækkun lánshlutfalls við lánastofnanir, mikil hækkun leiguverðs o.s.frv. Það er svo margt sem gerir að verkum að fólk á erfiðara með að fóta sig á húsnæðismarkaði og kallar á aðgerðir hins opinbera. Í greinargerð með tillögu þingmannanna segir, með leyfi forseta:

„Möguleikinn á nýtingu séreignarsparnaðar til uppgreiðslu lána eða útborgunar í fasteign er skref í rétta átt en nýtist ekki öllum þjóðfélagshópum. Þannig nýtist sú leið tæplega námsmönnum eða nýútskrifuðum nemum sem hafa ekki aflað tekna á vinnumarkaði nema að takmörkuðu leyti.“

Það hefði verið áhugavert að geta átt samtal um þetta við þingmennina en einhverra hluta vegna telja þau ekki ástæðu til að ræða þessi mál við okkur. Þrátt fyrir að guma af því að ríkisstjórnin hafi staðið svo stórkostlega að stuðningi á húsnæðismarkaðnum og annað eins hafi ekki sést þá tjá þau sig afar lítið hér í pontu. Þau gefa mjög lítil færi á að eiga við þau skoðanaskipti, sem er mjög bagalegt.

Ég gæti farið yfir meira. Hér eru nokkrar áhugaverðar glærur frá velferðar- og fjármálaráðuneytinu sem hefði verið gaman að geta tekið til umræðu en tími minn er á þrotum.

Frú forseti. Ég held að þetta mál sé eitthvað sem ég get ekki fallist á og mun ekki geta stutt að óbreyttu vegna þess að það er enn eitt málið sem leiðir til aukins ójöfnuðar.