145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli á því að enn og aftur berast kunnuglegar fréttir, júlí var heitasti mánuðurinn á jörðinni til þessa frá því mælingar hófust. Áskoranirnar eru svo óendanlega miklar að maður veit varla hvar maður á að byrja. En við sjáum í ýmsum löndum, t.d. Hollandi, hafa menn sett metnaðarfull áform fram eins og að árið 2025 verði engir bílar knúnir jarðefnaeldsneyti, olíu. Við á Íslandi erum með einhver áform en ef við horfum til dæmis á hvaða bifreiðar ríkisstofnanir eru að kaupa eða bara ráðherrarnir sem skipa ríkisstjórnina, þá er þetta meira í orði en á borði, einhverjar hugleiðingar um að árið 2020 verði 10% bílaflotans knúnir endurnýjanlegu eldsneyti.

Aðgerð sem ég veit að hæstv. umhverfisráðherra er að vinna í er að berjast gegn matarsóun sem er gríðarlega mikilvægt en þar vantar t.d. upplýsingar um hversu miklu magni af mat er verið að henda, t.d. bara úr verslunum. Mig grunar að það sé mikið magn. Það er svolítið sérstakt að í rauninni er ódýrara fyrir verslanir að fara með útrunnar matvörur, sem ekki hefur tekist að selja, í urðun en að fara með þær í moltugerð eða jarðgerðarstöðvar. Þarna er hvati sem stjórnvöld eiga að beita. Það á að vera skylt að fara með lífrænan úrgang í moltugerð og það á að vera ódýrara en að urða hann, en í dag er staðan þannig að ódýrara er að fara og urða brauðin í plastinu eða hvað það nú er. Ég held að þetta gæti verið ein mikilvæg leið fyrir verslanir til að fá þær til að draga úr sóun og mynda hvata til að selja matvæli (Forseti hringir.) áður en þau verða útrunnin.


Efnisorð er vísa í ræðuna