145. löggjafarþing — 136. fundur,  19. ág. 2016.

gjaldeyrismál.

826. mál
[11:30]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í þessu frumvarpi er að finna heimildargrein fyrir Seðlabankann til þess að afla upplýsinga umfram það sem á við í dag. Ég hvet nefndina til að fara mjög vel yfir það hvort nokkuð er gengið lengra þar en þörf krefur, en þar er einmitt grunnhugsunin sú að við getum haft til staðar þau tæki, þau tól, sem best geta gert okkur kleift að greina áhættu sem er að byggjast upp í kerfinu. En þetta er aðeins ein grein af mörgum sem komið hafa hér inn í þingið. Við höfum með umbreytingu á lögum um fjármálamarkaðina sömuleiðis verið að setja stífari reglur, takmarka þá áhættu sem fjármálafyrirtæki geta tekist á herðar og auka eiginfjárkröfur. Ég gæti lengi haldið áfram. Ein takmörkun sem við erum nýlega búin að setja í lög varðandi bindiskyldu á skammtímafjármagn sem kemur inn til Íslands er til merkis um það að við hyggjumst til lengri tíma vera með frekari þjóðhagsvarúðartæki til þess að sporna gegn öfgasveiflum eins og við þekkjum úr fortíðinni. En þrátt fyrir allt þetta, þrátt fyrir allt regluverkið og viðleitni okkar til þess að vera vel upplýst á hverjum tíma þá verðum við áfram í opnu frjálsu markaðshagkerfi útsett fyrir sveiflum sem geta því miður valdið vandræðum, bæði almennt í hagstjórn, og þá á ég við vanda sem getur ratað inn á borð hjá stjórnvöldum, ríki, sveitarfélögum, en ekki síður hjá heimilunum. Þar erum við á sama báti og önnur opin frjáls hagkerfi að velja þennan kostinn þrátt fyrir gallana vegna þess að hinn valkosturinn, sem er að loka og handstýra öllu, hefur reynst miklu skaðlegri fyrir lífskjör til lengri tíma. Við skulum ekki gleyma því (Forseti hringir.) að þrátt fyrir þær miklu sveiflur sem við höfum gengið í gegnum þá erum við mjög ört að rétta úr kútnum og sveiflurnar (Forseti hringir.) voru gríðarlegar víða annars staðar þar sem menn eru enn að strögla við að ná sér á lappirnar.