145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

framlög til lífeyrisgreiðslna í fjármálaáætlun.

[15:08]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Það dró til nokkurra tíðinda í þingsal á fimmtudag var þegar Eygló Harðardóttir, hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, sat hjá við afgreiðslu fjármálastefnu til framtíðar. Hér var um að ræða verkfæri sem margir hér höfðu mjög mikla trú á að væri til bóta, við værum að horfa fram í lengri framtíð en sem nemur fjárlögum hvers árs og hafði fólk nokkrar væntingar til þessa verkfæris. Þetta voru bæði pólitísk tíðindi og snúin fyrir ríkisstjórnina eins og fram hefur komið og hæstv. fjármálaráðherra var í nokkrum vanda frammi fyrir þessari stöðu í ríkisstjórninni, ekki síst vegna þess að hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra rökstuddi sitt mál með því að ekki væri hugað nægilega vel að lífeyrisþegum og barnafjölskyldum inn í framtíðina og hún gæti af þeim sökum ekki stutt þetta mál. Félagsmálaráðherra ríkisstjórnarinnar segir sem sé að ekki sé horft til þessara hópa þegar við fáum loksins tækifæri til að gera áætlun til lengri framtíðar.

Mig langar af þessum ástæðum að spyrja hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um þetta, því að hann skrifaði bréf sjálfur til kjósenda, eldri borgara meðal kjósenda, í kosningabaráttunni 2013 þar sem hann listar upp það sem Sjálfstæðisflokkurinn muni gera og orðar það svo, með leyfi forseta: „Til að það megi verða þarfnast Sjálfstæðisflokkurinn stuðnings þíns á laugardaginn.“

Telur hæstv. fjármálaráðherra að hann sem formaður Sjálfstæðisflokksins hafi staðið við þau áform sem koma fram í þessu bréfi, þau loforð sem hann lofaði sínum kjósendum? Það hlýtur að orka tvímælis frammi fyrir orðum félagsmálaráðherra sem segir að þessum málum sé ekki tryggilega fyrir komið í framtíðarsýn þess sama ráðherra.