145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

málefni lánsveðshóps.

[15:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Það eru vonbrigði. Mér finnst hæstv. ráðherra vera í raun og veru að viðurkenna að það sé búið að vera að gera ýmislegt yfir sviðið og fara nokkrar umferðir á þessu og nú eru menn komnir að því að skoða stöðu þeirra sem í núinu og á næstu árum ætla að reyna að kaupa sína fyrstu íbúð, en þessi hópur er enn þarna. Það er staðreynd að hann er það. Ég fæ um það skilaboð nokkuð reglulega.

Það er rétt, lífeyrissjóðirnir ætluðu ekki að taka á sig mikinn kostnað. Þar lá nú hundurinn grafinn. Það gekk svona erfiðlega að ná þessu saman vegna þess að lífeyrissjóðirnir voru mjög stórir í þessu dæmi og báru einfaldlega fyrir sig stjórnarskrána, þeim væri ekki heimilt að gefa eftir innheimtanlegar eignir þar sem full veð væru til staðar. Þess vegna varð niðurstaðan sú að þeir tækju eingöngu á sig 12–15% kostnaðarins og ríkið ætlaði að bera rest. Eftir sem áður var ekki reiknað með að það yrðu nema 2–3 milljarðar sem ríkið þyrfti að leggja út. Bankarnir höfðu unnið talsvert úr þeim hópum sem voru hjá þeim, sérstaklega ef báðir aðilar, lántakinn og sá sem lánaði veðið, voru í viðskiptum hjá (Forseti hringir.) sama banka. Eftir stóðu aðallega lífeyrissjóðirnir og þeirra lán. Nú hafa einhverjir af þessum aðilum væntanlega fengið einhverjar niðurfærslur í stóra pakkanum (Forseti hringir.) þannig að dæmið ætti að hafa minnkað. Það hlýtur að vera hægt að opna fyrir það að þessi hópur skili nú loksins inn sínum gögnum (Forseti hringir.) og það verði metið hvort ekki er að einhverju leyti hægt að koma til móts við hann.