145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

málefni lánsveðshóps.

[15:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég skal bara segja um þetta mál að núna á árinu 2016 þegar um átta ár eru að verða liðin frá falli fjármálafyrirtækjanna og því ástandi sem með því skapaðist þá er ég svo sannarlega ekki á móti því að farið sé yfir það hver staða þeirra er sem falla undir þessa skilgreiningu. En ég óttast að flækjustigið sé orðið gríðarlegt vegna eigna sem eru horfnar, vegna ráðstafana sem er búið að grípa til í millitíðinni. Ég held að það verði bara að horfast í augu við það að þær tvær ríkisstjórnir sem hafa starfað þennan tíma hafa forgangsraðað með öðrum hætti en í þágu þessa hóps. Menn segja að 2–3 milljarðar séu ekki mikið til þess að reyna að taka á þessum vanda. Ég veit ekki hvort það mundi duga. Ég man ekki betur en að við værum að horfa á að tölurnar gætu orðið töluvert hærri. En 2–3 milljarðar, það er (Forseti hringir.) jafnvel rúmlega helmingur af öllu því sem menn eru að ræða um að gera fyrir eldri borgara og öryrkja með nýjum lögum og kalla svo sterkt eftir. Þetta eru stórar tölur.