145. löggjafarþing — 137. fundur,  22. ág. 2016.

félagasamtök til almannaheilla.

779. mál
[15:50]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skil vel þær spurningar sem hv. þingmaður leggur fram vegna þess að ég hef spurt þeirra sjálf. Eins og ég segi og sagði í framsögu minni þá á þetta sér rætur allt aftur til ársins 2010 þar sem að frumkvæði þessara samtaka var óskað eftir því að þessi mál yrðu tekin til skoðunar með það að markmiði að skýra regluverk og laga umgjörð fyrir þessi samtök, sem gegna gríðarlega mikilvægu hlutverki í okkar samfélagi og er stofnað til, ekki í ágóðaskyni heldur til ýmissa góðgerðaverka og mikilvægra verkefna sem er sinnt í þjóðfélaginu. Þetta er allt frá því að vera lítið styrktarfélag um einstaka mál upp í Landsbjörgu. Hagsmunirnir eru því margir og mismunandi.

Það sem þarna kemur inn í er kannski í fyrsta lagi að kallað er eftir lagaumgjörð til þess að þau félög eigi betur með að starfa innan lagaramma sem hentar þeim, líka á grundvelli þess að þetta er styrktarfé, hvernig farið er með skattaívilnanir og frádrátt sem fjármálaráðherra hefur lagt hér fram og var samþykkt á seinasta þingi, að mig minnir, hvernig farið skuli með það og hvaða kröfur þurfi að gera til þessara félaga um að skila upplýsingum, um starfsemi félaganna o.s.frv. Það er með ákveðnum hætti verið að reyna að laga félagaformið að starfseminni þannig að þessi félagasamtök geti þá einbeitt sér að þeim mikilvægu hugsjónaverkefnum sem þau eru að (Forseti hringir.) starfa að alla daga og að félagaformið henti þeirra starfsemi betur.