145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

starfsáætlun sumarþings.

[11:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra segir að það eigi ekki að koma neinum á óvart, og þeir hafi sagt það þeir félagar, hann og hæstv. forsætisráðherra, að breyta eigi samkomudegi þingsins. Þá kalla ég eftir frumvarpi um það að lögum landsins sem segja að samkomudagur þingsins eigi að vera annar þriðjudagur í september verði breytt. Ég bið um að það frumvarp verði lagt fram.

Ég vil líka segja, virðulegi forseti, að við hljótum að tala svolítið um þetta vegna þess að áður en þing var sett eða áður en við komum hér saman var sagt að nú mundi allt velta á því að stjórnarandstaðan væri ekki að þvælast fyrir. Mig langar bara til að segja það sem maður sem ég ber mikla virðingu fyrir sagði við mig í gær: Ja, það er alla vega ljóst að ekki þvælast málin fyrir hér í þessum sal.