145. löggjafarþing — 141. fundur,  29. ág. 2016.

stefna stjórnvalda í samgöngumálum.

[15:31]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil ræða við hæstv. fjármálaráðherra um sveltistefnu ríkisstjórnarinnar í innviðauppbyggingu. Þá er ég sérstaklega að hugsa um samgöngumál. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti þingheim um það síðastliðið vor þegar við ræddum ríkisfjármálaáætlun að 400 milljarðar flæddu núna yfir barma ríkissjóðs. En á sama tíma eru helstu innviðir í samfélagi okkar við það að bresta undan álagi, ekki síst vegakerfið. Í þeirri ríkisfjármálaáætlun sem var lögð fram í maí og gildir til næstu fimm ára er gert ráð fyrir stífu aðhaldi í fjárfestingum og framkvæmdum og beinlínis tekið fram að þetta muni bitna á samgöngukerfinu. Þetta er alvarlegt mál við núverandi aðstæður því að samgöngukerfið er megininnviðir sem allt atvinnulíf og búseta byggir á. Um það vitna ekki síst áköllin sem okkur þingmönnum hafa borist síðustu mánuði og missiri frá sveitarstjórnarmönnum, sjúkraflutningamönnum, löggæslunni, ferðaþjónustunni og fleirum um úrbætur, vegna þess að vaxandi ferðaþjónusta hefur aukið svo álagið, m.a. á löggæsluna, sjúkraflutninga og ekki síst vegi landsins, að það horfir til vandræða. Þegar við bætist sú staðreynd að í landinu hefur á síðustu árum hlaðist upp mikil fjárfestingar- og framkvæmdaþörf, opinber fjárfesting hefur dregist saman um 47% frá hruni, þá hljóta áhyggjurnar að aukast enn frekar þegar ríkisfjármálaáætlun boðar aðhald í samgönguframkvæmdum á næstu fimm árum. Og raunar er opinber fjárfesting samkvæmt áætluninni ekki nema 1,3% af landsframleiðslu, sem er ískyggilega (Forseti hringir.) lágt hlutfall. Það er þessi sveltistefna sem ég vil ræða við hæstv. fjármálaráðherra.