145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[20:30]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það verður alltaf athyglisverðara og athyglisverðara að fylgjast með þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu. Einu sinni var fundin upp sú leið í umferðareftirliti að búa til þykjustulöggur og klippa þær út úr pappa. Staðan í þinginu er sú að hér er orðið allt fullt af pappafrjálslyndisþingmönnum Sjálfstæðisflokksins, fólki sem þorir ekki að standa við sjónarmið sín en lendir núna í ákveðinni þröng vegna þess að prófkjör eru fram undan. Ég hlýt að spyrja í ljósi þess að það er flokksbróðir hv. þingmanns, hv. þm. Jón Gunnarsson, sem á frumkvæðið að því að stytta samninginn í þrjú ár: Ætlar hún að styðja það að hann verði þá raunverulega þrjú ár samkvæmt þeirri orðanna hljóðan sem við viljum leggja til? Það sem ég óttast er að menn séu beinlínis að varpa ryki í augu þjóðarinnar, í augu kjósenda sinna í aðdraganda prófkjörs, og segja að þeir séu að búa til þriggja ára samning þegar þeir eru í reynd að búa til tíu ára samning. Ég hlýt þess vegna að kalla eftir því að hv. þingmaður svari því alveg skýrt: Er hún tilbúin að hjálpa okkur að girða niður um hv. þm. Jón Gunnarsson og félaga hans að þessu leyti þannig að það verði ljóst og hv. þingmaður þurfi þá að standa berrassaður gagnvart kjósendum sínum í Suðvesturkjördæmi? Það er auðvitað það sem er okkar hlutverk í þinginu.

Síðan verð ég líka að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hún sem lögfræðingur að það geti þýtt að lögfesta samninginn í því formi sem hann er núna þar sem stendur og er skrifað inn að eitthvað skuli gerast fram til loka árs 2026? Hverjir eru möguleikar löggjafans á næsta kjörtímabili þegar blessunarlega eru horfur á því að verði færri framsóknarmenn í þingsölum, færri framsóknarmenn úr öllum flokkum og þar með kannski von til þess að frjálslyndið fái aðeins að gusta betur hér um sali, hversu bundið verður næsta þing af afturhaldinu á þessu þingi?