145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[21:52]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kýs að hafa það ekki með neinum fyrirvara. Ég legg til að hv. þingmaður leggist á sveif með okkur þingmönnum Samfylkingarinnar og greiði atkvæði með þeirri breytingartillögu sem við erum með þar sem segir skýrt að samningurinn gildi í þrjú ár. Þá þurfum við ekkert að ræða lengur hvort þetta standist stjórnarskrá eða ekki. Þá er það alveg klárt, samningurinn gildir í þrjú ár og síðan hefst hið mikla þjóðarsamtal, sem hefði náttúrlega átt að vera búið að fara fram áður en ríkisstjórnin leyfði sér að leggja fram tíu ára samning sem hún segir í upphafi að sé einhver bylting. Og er engin bylting, ekki nein. Auðvitað er nefnt í þessari greinargerð og er í þessum samningi eitt og annað sem horfir til betri vegar. Ég sagði það líka. En í stóra samhenginu er samningurinn vondur. Þess vegna skulum við bara hafa hann til þriggja ára, fyrst að þingmaðurinn fellst á það, hefja þjóðarsamtalið og koma með byggðaáætlun eftir þrjú ár. Það væri hið besta mál.