145. löggjafarþing — 143. fundur,  31. ág. 2016.

kosningar til Alþingis.

843. mál
[18:39]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis. Þetta frumvarp eða þessar tillögur til lagabreytinga eru tæknilegs eðlis og snúa fyrst og fremst að því að verið er að breyta kosningadeginum frá því sem hefðbundið er. Í stað þess að kjósa í vor skal kosið núna í haust.

1. gr. gengur út á að breyta í lögum heitinu á Seltjarnarnesbæ, eins og bærinn heitir nú, hét í lögunum og heitir í lögunum Seltjarnarneskaupstaður. Síðan er það megingrein frumvarpsins sem er 2. gr. og ég ætla að lesa greinargerð eða skýringar við 2. gr., með leyfi forseta:

„Lagt er til ákvæði til bráðabirgða um að íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis verði teknir á kjörskrá ef þeir leggja fram fullnægjandi umsókn um kosningarrétt í síðasta lagi 29. september 2016. Öðlast þeir þá réttinn til að kjósa við þær alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru á hausti komanda. Að öðru leyti fer um kosningarréttinn skv. 2. gr. kosningalaga. Kosningarrétturinn fæst með þessu ákvæði ef umsókn berst Þjóðskrá Íslands fyrir miðnætti 29. september 2016 að íslenskum tíma. Umsækjendur eiga þess nú kost, sem hingað til, að sækja eyðublað á vef Þjóðskrár Íslands, www.skra.is. Eyðublaðið þarf að fylla út og undirrita eigin hendi og senda til Þjóðskrár með pósti eða sem skannað viðhengi í tölvupósti eða senda rafrænt í gegnum netskil. Mikilvægt er að umsókn berist áður en frestur er liðinn. Að öðrum kosti gildir fullnægjandi umsókn sem berst eftir að frestur er liðinn frá 1. desember 2016.

Íslenskir ríkisborgarar sem búsettir eru erlendis og höfðu þegar sent fullnægjandi umsókn um kosningarrétt, sem átti að gilda frá 1. desember 2016, öðlast á sama hátt kosningarrétt fyrir þær alþingiskosningar sem fyrirhugaðar eru í haust. Að öðru leyti fer um kosningarréttinn skv. 2. gr. kosningalaga. Þjóðskrá Íslands tilkynnir umsækjendum þessa breytingu og hlutaðeigandi sveitarstjórnum.“

Síðan er í rauninni ekki meira um þetta að segja. Það er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem flytur þetta mál. Þetta er auðskiljanlegt og nauðsynlegt að verði lögfest fyrir komandi kosningar. Ég tel óþarfi að vísa þessu máli til nefndar en vonast til að það gangi til atkvæðagreiðslu sem allra fyrst.