145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[12:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Það er einmitt lóðið. Landbúnaður er eins og hver annar atvinnuvegur. Það er bara enginn annar atvinnuvegur sem hefur samning til tíu ára um hvernig hlutirnir eigi að vera. Hér er lagt til að það verði fest klárlega í lögin að þessi samningur sé til þriggja ára sem menn segja einn daginn að sé til þriggja ára og svo kemur næsti og segir að hann sé til tíu ára. Ég reyndi síðast í gær í andsvari við lokaræðu hv. framsögumanns málsins að fá hann til að sannfæra mig um að samningurinn bindi okkur ekki eftir þrjú ár en hann gat ekki sannfært mig um það. Þess vegna er málið einfalt: Festum það í lögin, hefjum þjóðarsamtalið og komum svo með nýjan samning eftir þrjú ár.