145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[18:04]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir umræðuna sem er mikilvæg og einkar viðeigandi að hún skuli eiga sér stað í dag í beinu framhaldi af framlagningu og umræðu um tillögur hæstv. forsætisráðherra um stjórnarskipunarbreytingar.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru ekki það sama og þjóðaratkvæðagreiðslur. Málshefjandi kom ágætlega inn á að eðli þjóðaratkvæðagreiðslna er mismunandi eftir því í hvaða tilgangi þær eru ákveðnar og hver ákveður þær. Reynslan frá öðrum löndum er margvísleg, eins og fleiri þingmenn hafa farið yfir hér á undan mér. Þótt Sviss sé eins konar mekka þjóðaratkvæðagreiðslna, og beins lýðræðis samþykktu engu að síður einhverjir hlutar landsins ekki kosningarrétt fyrir konur fyrr en 1971. Þjóðaratkvæðagreiðslur er því ekki óskeikult verkfæri. Í Kaliforníu er oft talað um dæmi um erfiðar niðurstöður sem bundið hafa hendur stjórnvalda í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslna.

En ég tel að þjóðaratkvæðagreiðslur séu samt mikilvægur hluti af beinu lýðræði. Beint lýðræði er framtíðin. Aukin bein þátttaka í lýðræðinu fylgir aukinni menntun, aukinni getu í gegnum tækni o.s.frv. Þá skiptir máli að hefja ferðina rétt. Ég tel mjög mikilvægt að Alþingi geti við ákveðnar aðstæður vísað mjög stórum málum eða grundvallarmálum til þjóðaratkvæðagreiðslu. Mér finnst líka mjög mikilvægt að almenningur hafi einhverja leið (Forseti hringir.) til þess að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu eða málum á dagskrá. (Forseti hringir.) En síðan á líka að vera einhvers konar öryggisventill í ákveðnum tilfellum, (Forseti hringir.) eins og þegar Alþingi fór í raun gegn ákvörðun sinni varðandi aðildarviðræður við ESB. (Forseti (BjÓ): Forseti vill aftur vinsamlega biðja hv. þingmenn um að gæta að tímamörkum.)