145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

eðli og tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslna.

[18:12]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Í framhaldi af því sem ég var að fjalla um áðan þá vil ég undirstrika að mín nálgun gagnvart þessum efnum er sú að við eigum að stíga varfærin skref í þessa átt. Í tillögum stjórnlagaráðs sem margir hafa vitnað til er gert ráð fyrir fleiri leiðum til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur en hér liggur fyrir í frumvarpsformi og eins er gert ráð fyrir ákveðnu, getum kallað það samspili þjóðaratkvæðagreiðslu og þings í ákveðnum tilvikum. Ég held að þegar við tölum um grundvallarbreytingar af þessu tagi þá eigum við að stíga varlega til jarðar. Ég tel að í framhaldinu, ef tillögur af því tagi sem nú liggja fyrir ná fram að ganga, þá væri hugsanlega hægt að skoða möguleika á útvíkkun síðar.

Hins vegar held ég að sú ráðstöfun að heimila í stjórnarskrá tilteknum hluta kjósanda að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu í ákveðnum tilvikum um lög sem samþykkt hafa verið á Alþingi með ákveðnum undanteknum og um tilteknar tegundir þingsályktunartillagna geti verið mikilvæg og sé í raun og veru betra form en að fela forseta Íslands einum að meta í tilviki lagafrumvarpa hvort efna skuli til þjóðaratkvæðagreiðsla.

Það er auðvitað rétt eins og hefur komið fram hér að í tillögum okkar sem sátum í stjórnarskrárnefnd var ekki gert ráð fyrir að 26. gr. um (Forseti hringir.) málskotsrétt forseta félli niður, en ég held hins vegar að komi til þess (Forseti hringir.) að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu með formlegum og bindandi hætti mundi (Forseti hringir.) 26. gr. sennilega núllast út í tímans rás.