145. löggjafarþing — 144. fundur,  1. sept. 2016.

samningur Íslands og Evrópusambandsins um viðskipti með landbúnaðarvörur.

783. mál
[18:42]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður flutti ræðu sem um margt var mjög fróðleg. Ég lagði sérstaklega eyrun við umfjöllun hennar um notkun sýklalyfja og tíðni baktería sem væri að finna í bústofnum, baktería sem væru ónæmar fyrir sýklalyfjum. Ég var eiginlega að búast við því undir lokin að heyra að hv. þingmaður væri að vara við þessum samningi, en svo var náttúrlega ekki. Hér talaði framsögumaður fyrir málinu.

En spurning mín er þessi. Í dag fór fram atkvæðagreiðsla um búvörulög og sitt sýndist hverjum þar. Ég tel að margt hafi verið þar jákvætt að finna og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði studdum margt í þeim samningum og þeim lögum, sátum hjá við annað, en hér er komið að máli sem við erum mjög andvíg. Nú er spurning mín þessi: Að hvaða marki hanga þessi mál saman? Að hvaða marki tilheyra þau að mati hv. þingmanns sama pakkanum? Væri ekki hægt að fara að okkar ráði að láta þetta mál liggja, jafnvel þótt hitt sé afgreitt, og við gaumgæfum betur hvort við eigum að stíga það afdrifaríka skref sem samþykkt þessa máls mundi að mínum dómi hafa í för með sér?