145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[15:30]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegi forseti. Það mál sem er til umræðu er að mörgu leyti góðra gjalda vert. Ég styð það. Það hefur tekið mjög jákvæðum breytingum í meðförum umhverfis- og samgöngunefndar, sérstaklega eftir að tveir hv. þingmenn úr nefndinni fóru í að sníða af því helstu vankanta í sumar. Þessir hv. þingmenn eru Vilhjálmur Árnason og Svandís Svavarsdóttir. Og náðst hefur mjög góð samstaða um þetta mál í nefndinni. Þetta er kannski ekkert sérstaklega stórt eða flókið en þetta eru lagfæringar á þeim lagaramma sem Vatnajökulsþjóðgarður býr við. En af því tilefni er ágætt tækifæri til að taka umræðuna sem hér hefur verið í gangi um þjóðgarða og það fyrirkomulag sem við höfum í þeim efnum hér á landi.

Mig langar til að segja, eins og aðrir hafa gert hér, að það fyrirkomulag sem er notað varðandi rekstur Vatnajökulsþjóðgarðs með þessum svæðisráðum, þar sem tryggð er aðkoma heimamanna á hverjum stað er auðvitað vegna þess að þjóðgarðurinn er mjög víðfeðmur og spannar mjög mikið landsvæði. Komið hefur í ljós að það er mjög vel heppnað. Það gengur mjög vel að vinna hlutina með þeim hætti. Meðal þess sem hefur opinberast mér í þeirri vinnu sem fram hefur farið í þessu máli í nefndinni er að þegar og ef menn færu í að stofna þjóðgarð á miðhálendinu eða stækka Vatnajökulsþjóðgarð og sameina hann þjóðgarði sem næði yfir miðhálendi Íslands, þá væri þetta stjórnarfyrirkomulag á þeim þjóðgarði mjög vel heppnað til að tryggja aðkomu þeirra sem búa í nágrenni þjóðgarðsins og eiga hagsmuna að gæta á því landsvæði sem um ræðir.

Auðvitað væri það æskileg þróun ef menn færu í það að stækka Vatnajökulsþjóðgarð, búa til miðhálendisþjóðgarð sem næði yfir miðhálendið og tengdist inn í Vatnajökulsþjóðgarðinn. Það væri jafnframt æskilegt að þeir þjóðgarðar sem fyrir eru, Þingvallaþjóðgarður og Snæfellsjökulsþjóðgarður, rynnu saman inn í rekstur þessa stóra þjóðgarðs á miðhálendinu og á Vatnajökulssvæðinu þannig að úr yrði ein yfirstofnun, þjóðgarðastofnun, sem færi með stjórnun þessara þjóðgarða.

Um þetta tel ég að ætti að geta náðst nokkuð þverpólitísk samstaða. Í tillögum hins svokallaða hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar, sem tók til starfa í upphafi þessa kjörtímabils og í sátu auk annarra hv. þm. Vigdís Hauksdóttir og hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, sem eru formaður og varaformaður fjárlaganefndar, var það ein af tillögunum sem hópurinn lagði til að rekstur Þingvallaþjóðgarðs yrði sameinaður öðrum rekstri og uppbyggingu þjóðgarða og friðlýstra svæða og að mynduð yrði ein stofnun sem færi með yfirstjórn þessara landsvæða. Við heyrum í þessari umræðu í dag að sambærileg sjónarmið eru uppi í rauninni innan allra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á Alþingi. Því miður hefur ekkert orðið úr þeim áformum sem birtust okkur í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar í upphafi þessa kjörtímabils, en það sýnir þó að minnsta kosti að þessar hugmyndir ættu ekki að mæta mikilli andstöðu innan þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi. Það væri óskandi að við mundum einmitt ganga jafn langt og hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar lagði til þegar hann sagði í sínum tillögum og texta að innan slíkrar stofnunar ættu líka heima friðlýst svæði, því að við erum með nokkrar ólíkar tegundir af landi sem er í opinberri eigu. Það eru þjóðlendur sem eru undir forsætisráðuneyti, það eru friðlýst svæði sem flest eru í umsjón Umhverfisstofnunar, það eru sérstök svæði eins og Þórsmörk þar sem Skógræktin er í forsvari og svo erum við með þjóðgarðana. Það væri auðvitað æskilegt og eðlilegt að við hefðum umsjón allra þessara landsvæða á einni hendi og innan einnar stofnunar.

Ég sat síðast í morgun fund í Þingvallanefnd þar sem ég hef verið nefndarmaður undanfarin ár, á þessu kjörtímabili og því síðasta, og er stjórn þjóðgarðs. Þetta er nú um margt svolítið sérstök nefnd því að hún er skipuð sitjandi þingmönnum eingöngu en er stjórn þjóðgarðsins. Þetta hefur sýnt manni betur en nokkuð annað hversu mikil tækifæri eru fólgin í því að taka frá tiltekin svæði og láta þau lúta sérstakri stjórn og umsjón og ábyrgð eins og gert hefur verið með þjóðgarðinn á Þingvöllum. Þess vegna vil ég segja að það væri eðlilegt í því ástandi sem nú blasir við Íslendingum í ferðamálum að við mundum huga að þessum málum þannig að samfella væri í því hvernig við skipuleggjum þessi landsvæði. Það væri á einni hendi hvernig við byggðum upp áætlanir um að dreifa mannfjölda, á einum stað væri ákveðið hvernig við ætlum að huga að merkingum, byggja upp stíga, hvar eigi að leyfa fólki að tjalda, hvar verði leyfð umferð og hvernig ólíkar tegundir af ferðamennsku, hjólreiðar, göngur, jeppaferðamennska, vélsleðar, mótorhjól og ýmis konar fjallasport og skíðamennska geti farið saman innan þessara svæða. Og svo auðvitað bara almenn náttúruupplifun sem fellur undir alla þessa flokka.

Þetta er vinna sem búið er að vinna í mjög mörgum löndum, ekki síst löndum í kringum okkur. Ég nefni til dæmis alveg sérstaklega Noreg og Skotland. Ég var nýverið á ferð um Skotland. Þar er til mikillar fyrirmyndar hvernig að þessum málum hefur verið staðið. Uppbygging er langt á veg komin, skipulagið er mjög gott. Það er ótvíræð upplifun þeirra sem sækja þjóðgarða heim í Skotlandi að þetta sé í umsjón almennings, sé eign fólksins og sé hugsað fyrir alla. Þetta er ekki fyrir einhvern þröngan hóp, ekki spurning um efnahag, þetta er gert til þess að allir geti notið og komist í tengsl við náttúruna. Sem er einmitt hluti af því verkefni sem við fáumst við innan Þingvallanefndar, þar sem yfirlýst stefna þjóðgarðsins er að reyna eftir fremsta megni að kaupa upp þau lönd og það land sem farið hefur undir sumarbústaði, sem ráðstafað var til sumarbústaðabyggða innan þjóðgarðsins á síðustu öld. Nefndin hefur verið mjög trú því verkefni sínu eftir fremsta megni, þegar losnað hefur um bústaði eða lönd eða þau ganga kaupum og sölum hefur nefndin forkaupsrétt sem hún hefur nýtt sér í eiginlega öllum þeim tilfellum þar sem henni er það kleift. Er það yfirlýst stefna nefndarinnar og stjórnar Þingvallaþjóðgarðs. Af hverju er það gert? Jú, það er vegna þess að þjóðgarður er þjóðarinnar. Allt svæðið á að heyra undir almenning. Þar á að vera jafn aðgangur fyrir alla. Það er ekki hugmyndin að fólk sem hefur meiri fjárráð en aðrir geti keypt þar sérstök svæði, lokað þeim af og haft þau sérstaklega fyrir sig. Það er einfaldlega hluti af mannréttindum að mínu mati að eiga aðgang að hreinni og fallegri náttúru. Ég tala nú ekki um þegar um jafn heilagan stað í sögu landsins er að ræða eins og sjálfa Þingvelli. Þar er það sérstaklega mikilvægt að við tryggjum að það sé algerlega óháð efnahag að aðgengið sé fyrir alla og þetta sé fyrir þjóðina.

Meðal þess sem fjallað var um í samtali nefndarinnar um það mál sem hér er á ferðinni var staðsetning höfuðstöðva Vatnajökulsþjóðgarðs. Hvort þær ættu að vera í garðinum. Að mörgu leyti getur maður tekið undir að það væri æskilegt ef hægt væri að gera það, að höfuðstöðvarnar væru þar. En á hitt ber auðvitað að benda líka að fjögur ólík svæði eru innan þjóðgarðsins. Það eru nokkrir þjóðgarðsverðir sem hver um sig sér um ákveðin svæði. Mesta hagræðið er í því fólgið og þeir hafa sjálfir bent á það að geta átt fundi sína á höfuðborgarsvæðinu, í Reykjavík, þar sem önnur stjórnsýsla er og þar sem mestallt af opinberum erindisrekstri sem tengist rekstri þjóðgarðsins fer fram. Það eru auðvitað rök sem koma á móti. En menn geta séð fyrir sér að ef slík yfirstofnun, þjóðgarðastofnun, yrði sett á fót væri eðlilegt að stjórnsýsluhluti hennar væri með höfuðstöðvar á höfuðborgarsvæðinu en síðan væru svona svæðisstjórnir og starfsemi og stofur í garðinum sjálfum sem færu með verkefni sem tengdust sérstaklega svæðunum.

Síðan hefur líka verið rætt um lokanir sem þjóðgarðsvörðum eru veittar heimildir til og hafa haft heimildir til, að loka tilteknum svæðum t.d. vegna hættu á einhvers konar skemmdum eða náttúruhamförum, en líka vegna tiltekinna verkefna eins og t.d. kvikmyndaverkefna. Þá þurfum við auðvitað að ræða og velta fyrir okkur: Er nóg að verið sé að gera litla stuttmynd sem ekki margir kannski koma til með að horfa á til að réttlæta það að menn loki tilteknum svæðum í þjóðgarðinum? Hvaða skilyrði þurfa að vera fyrir hendi til þess að beitt sé lokunum? Í mínum huga ættu menn að reyna eftir fremsta megni að beita þeim ekki. Ég held að það ætti eiginlega alltaf að vera hægt að beina kvikmyndagerðarfólki eitthvert annað. Þetta er í rauninni atriði sem er svolítið óafgreitt og er ekki gengið frá með neinum rækilegum hætti í málinu. Það þarf að geyma það til betri tíma. En auðvitað má á móti benda á að í mjög mörgum kvikmyndaverkefnum, eins og t.d. þeim sem hafa verið framkvæmd við sunnanverðan Vatnajökul, í skriðjöklunum þar, er auðvitað um gríðarlega kynningu að ræða, bæði á landi og síðan þjóðgörðunum.

Og það er auðvitað hluti af þeirri starfsemi sem á að fara fram í þjóðgarðinum að reyna að laða fólk þangað, koma fólki til að fara út í náttúruna, út í þjóðgarðana, og upplifa hana. Ég mundi sjá fyrir mér að með öflugri stofnun sem færi með stjórn stærra landsvæðis en Vatnajökulsþjóðgarðs gætum við gert miklu meira en við gerum í dag. Farið með þennan hluta starfseminnar mun lengra, þessa kynningu á náttúrunni og gildi hennar. Við eigum auðvitað draga ungt fólk að, sem mögulega finnur ekki atvinnu í þéttbýliskjörnum, sem þiggur hugsanlega einhverjar bætur, það er mikið af ungum karlmönnum, strákunum okkar, sem eru fastir fyrir framan tölvuna og eru á bótum, sem mögulega gætu notið góðs af því að komast til starfa sem þjóðgarðsstarfsmenn. Það er dálítið kaldhæðnislegt að horfa framan í það að verkefni eru í gangi hér á landi sem eru mönnuð sjálfboðaliðum erlendis frá, tugunum saman, sem er bara mjög jákvætt út af fyrir sig, ekkert að því, sem vinna við stígagerð í þjóðgörðunum, í Þórsmörk og að Fjallabaki og víðar. Þetta er fólk sem býður sig fram til að koma. Í Þórsmörk er það á vettvangi Skógræktar ríkisins þar sem mjög mikið fyrirmyndarstarf hefur farið fram. Fólkið kemur og fær fæði og gistingu, sem er ekki nema bara tjaldgisting, og vinnur við uppbyggingu á stígakerfi sem við njótum síðan öll góðs af. Af hverju gerir fólk þetta? Jú, það er stórkostleg upplifun fyrir það. Þetta eru mjög falleg svæði, þetta er gefandi vinna og allir hafa gott af því að taka til hendinni úti í náttúrunni. Auðvitað eigum við Íslendingar að vera með einhvers konar verkefni í gangi þar sem við bjóðum ungmennum, okkar fólki á aldrinum 16–25 ára, eða upp undir þrítugsaldurinn, að taka til hendinni og láta ekki sitt eftir liggja í að byggja upp þjóðgarðana. Bæði væri það æskilegt fyrir þjóðgarðana að því leytinu til að við værum að kynna þeim komandi kynslóðum sem taka við landinu okkar þann hluta landsins og svo er þetta gríðarlega jákvæð og holl upplifun fyrir þá einstaklinga sem um ræðir. Það er svolítið grátlegt, að við skulum ekki með einhverjum hætti reyna að koma okkar unga fólki meira út í þessi verkefni.

Það er vissulega töluvert af ungum Íslendingum sem vinna mikið fyrirmyndarstarf innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Ég kynntist því á ferðum um Jökulsárgljúfur í sumar hversu mikið fyrirmyndarstarf er þar á svæðinu, hvað það er jákvæð og fín uppbygging sem þarna er búið að ráðast í. Það er grátlegt að núverandi stjórnarflokkar skuli ekki hafa staðið sig betur en raun ber vitni í því að fá fjármagn í að klára og ljúka við Dettifossveginn. Þetta er svæði sem er stórkostlegt. Það býður upp á gríðarlega mikla möguleika og getur tekið við miklu meira af ferðamönnum. Það er mjög jákvætt að fá fólk á þessi svæði. Þetta er stórkostleg náttúra sem þarna er á ferðinni og það væri miklu æskilegra að við settum peninga í að byggja upp innviði sem nýttust í slík verkefni frekar en að eyða milljörðum af almannafé í að byggja upp stóriðju á borð við þá sem er í útjaðri Húsavíkur og hefur leitt til þess að auðvitað er búið að eyðileggja Þeistareykjasvæðið. Maður veltir fyrir sér: Til hvers er þetta gert? Fyrir hvern eiginlega? Ekki skortir tækifærin í ferðamennsku í Húsavík. Það er troðfullur bær af ferðamönnum þar.

Ég vil líka nefna það í lokin þegar kemur að Vatnajökulsþjóðgarði, vegna þess að þar hefur verið að byggjast upp mjög mikil starfsemi sem snýst í kringum svokallaðar jöklagöngur, að þar er á ferðinni upplifun almennings af náttúru sem er gríðarlega sjálfbær. Það að leyfa fólki að fara upp á jökul og ganga þar um, skoða jökulsprungur, skoða ummerki þess að jöklarnir eru að hopa stórum, hefur mjög mikinn fræðslutilgang í för með sér. Það er mjög sterk upplifun fyrir fólk að verða vitni að loftslagsáhrifunum, breytingunum á loftslaginu þarna beint fyrir framan sig. Og svo er þetta mjög umhverfisvæn upplifun, þ.e. þessar göngur hafa ekki nein neikvæð áhrif á umhverfið. Nema ef vera skyldi að fólk skildi eftir sig eitthvað af sorpi á svæðinu, sem reynt er eftir fremsta megni að koma í veg fyrir og gengur mjög vel í flestum þeim tilfellum sem ég þekki til.

Þetta er það sem ég vildi nefna hérna í tengslum við frumvarpið sem er svona lagfæring á stjórnkerfi sem hefur í grófum dráttum reynst afar vel. En hægt er að vera með miklu meiri metnað í þessum efnum. Því miður tókst ríkisstjórnarflokkunum, sem lögðu fram þessa tillögu í upphafi síns kjörtímabils, ekki að gera neitt í því að breyta þessum stofnanastrúktúr þjóðgarða og friðlýstra svæða á Íslandi. Þrátt fyrir að greinilega sé vilji til þess og stuðningur hefur það ekki gengið eftir. En ég bind miklar vonir við að það náist í framhaldinu og eftir kosningar þverpólitísk sátt um það að taka virkilega til hendinni og gera þetta af miklum myndarskap. Búa til eina alvöruþjóðgarðastofnun sem fari með yfirumsjón og yfirstjórn alls lands sem almenningur á Íslandi á.