145. löggjafarþing — 147. fundur,  6. sept. 2016.

Vatnajökulsþjóðgarður.

673. mál
[16:00]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni yfirgripsmikla ræðu hans, enda flutt af mikilli þekkingu á málefninu. Ég vildi fyrst fá að inna hann eftir því að þegar unnið var að skipulagi í Vatnajökulsþjóðgarðinum gætti nokkurs árekstrar á milli ólíkra hópa sem nýttu sér landsvæðin, akandi umferð og göngufólk til að mynda, hvort tekist hafi að leysa úr þeim ólíku hagsmunum í því skipulagi sem við erum með þarna nú eða hvort það þurfi að vinna eitthvað frekar að þróun skipulagsins til þess að leysa úr því. Síðan talar hv. þingmaður um eina þjóðgarðastofnun fyrir landið, þá geri ég ráð fyrir að hann hugsi sér að Þingvellir séu einn af þeim þjóðgörðum sem undir hana mundu falla. Ég held að það sé eðlilegt. En mig langar að spyrja hvort hann teldi þá ekki eðlilegt að þinghelgin sjálf væri áfram á forræði þingsins vegna þess sögulega hlutverks sem Þingvellir og þinghelgin á Þingvöllum leika í sögu landsins og lýðræðisins, eða hvernig hann sjái það fyrir sér.

Í síðara andsvari fæ ég kannski að inna þingmanninn eftir því hvort hann telji að við getum tryggt aðkomu heimamanna með einhverjum hætti ef við erum komin með eina miðstýrða landstofnun fyrir alla þjóðgarðana, hvort það að fyrirkomulagið sé fyrir hvert og eitt svæði geri ekki eitthvað til þess að auka sem mest áhrif heimamanna á þróun þjóðgarðanna.